145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:52]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að þakka þessa umræðu sem hefur verið mjög gagnleg og fróðleg að mínum dómi og þakka utanríkisráðherra fyrir framsögu hans. Ég vil taka undir með hv. þm. og fyrrverandi formanni utanríkismálanefndar, Birgi Ármannssyni, þar sem hann fagnar því að aukin áhersla er lögð á varnar- og öryggismál í fjárlagafrumvarpinu. Það tel ég að sé mjög gott enda er miðað við það hvernig ástandið er í heiminum og einhver ríkasta skylda sem hvert samfélag eða ríki hefur gagnvart þegnum sínum er að vernda þá og stuðla að öryggi borgaranna.

Ég er líka ánægð með að flötur skuli finnast á því að nota það sem við höfum til staðar, þann útbúnað í varnarstöðinni í Keflavík sem hefur náttúrlega verið lögð niður, en sem nota megi til að auka öryggisgæslu í kringum Ísland og eins í samstarfi við hin NATO-löndin. Í því sambandi vil ég aftur minna á að þessi mál eru öll mjög tengd og þar koma upp þær gríðarlegu breytingar sem eru að verða hér á norðurslóðum rétt fyrir norðan okkur. Þá kemur upp í hugann mikilvægi þess að í Keflavík verði sett á fót alþjóðleg leitar- og björgunarmiðstöð og við Íslendingar róum að því öllum árum að svo verði því að það er einfaldlega afskaplega góð staðsetning fyrir slíka miðstöð núna þegar við erum að sjá að umferð mun aukast til muna um norðurslóðir.

Mig langar til að þakka ráðherranum kærlega fyrir þátttöku hans í umræðum um umhverfismál. Nú eru þessi mál að skarast mjög mikið milli umhverfisráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins og ég sé fyrir mér í framtíðinni að það muni gerast enn frekar. Ég spyr ráðherrann hvað hann sjái fyrir sér í því sambandi.