145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:22]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og fagna því sem hann segir að útlit sé fyrir að stofnunin hafi ríkara svigrúm. Ég held að ástæða sé til að gaumgæfa það, bæði í fjárlaganefnd og í atvinnuveganefnd, hvort nægjanlega sé í lagt.

Það er tilgangslítið að skip stofnunarinnar séu bundin við bryggju drýgstan hluta ársins og að stofnunin geti ekki nýtt þessi mikilvægu rannsóknaskip. Það er illa farið með fjármuni og aðstöðu ef svo er.

Svo er það auðvitað mjög hættulegt ef ástandið er þannig — ég frétti það til dæmis að á síðasta ári hafi verið farinn rækjuleiðangur að frumkvæði tveggja einkafyrirtækja og kostaður alfarið af þeim tveimur einkafyrirtækjum. Ef ekki hefði verið farið í þann leiðangur hefðu engar rækjurannsóknir átt sér stað af hálfu íslenskra stjórnvalda og þá hefði ekkert útflutningsfyrirtæki í rækju getað staðfest við viðskiptaaðila sína úti í heimi að um sjálfbærar veiðar væri að ræða.

Þetta er grafalvarlegt mál og þarna erum við komin að ystu mörkum þess sem við getum leyft okkur í skorti á grunnrannsóknum sem útflutningsþjóð, sem leggur allt upp úr því að selja vöru á markaði þar sem lagt er upp úr sjálfbærum veiðum. Við verðum að geta sýnt fram á það með óyggjandi hætti og vísindalegum niðurstöðum að veiðarnar standist allar kröfur um sjálfbærni og þetta er verulegt hættumerki.

Ég vil ítreka þá ósk að ráðherrann leggi sitt lóð á vogarskálarnar gagnvart stjórnarmeirihlutanum í þeim ágætu nefndum að kanna þetta til þrautar. Það er engin glóra í því að vera með skip stofnunarinnar bundin við bryggju og vera síðan að eyða kvóta, sem þjóðin á sameiginlega, í að láta einkafyrirtæki sinna þessum rannsóknum á skipum sem henta miklu síður til slíkra rannsókna en skip stofnunarinnar sjálfrar, hvað þá ef það á að verða, eins og í tilviki rækjunnar, að það gerist þá kannski ár frá ári að einu rannsóknirnar sem fari fram séu kostaðar af útflutningsaðilunum sjálfum. Það er heldur ekki gott fyrir þá til lengdar. Það þarf að hafa opinberar grunnrannsóknir sem eru kostaðar úr sameiginlegum sjóðum til að tryggja aðgang fyrirtækjanna að mörkuðum.