145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:25]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst hvað varðar samráð þá er það svo að ég lagði fram í sumar, nánar tiltekið 17. júní, hvítbók um umbætur í menntamálum þar sem ég lagði fram helstu atriði í stefnu minni í menntamálum. Ég hélt eina 33 eða 34 opna fundi um land allt. Á þá fundi komu um það bil 1.500 manns til að ræða þessi mál. Stofnaðir voru þrír sérstakir vinnuhópar um læsi, einn um námsframvindu og sá þriðji um starfs- og iðnnám. Þeim hópum tengdum voru síðan settir sérstakir samráðshópa milli ráðuneytisins, atvinnulífsins og háskólasamfélagsins, kennarasamtakanna og allra annarra sem að þessum málum koma og sérstaklega kallað eftir því að þeir sem væru í leiðtogahlutverkum í þessum samtökum sætu þar í sérstökum yfirstýrihópi til að tryggja að það væri sem mest samráð. Ég held að í kringum læsisátakið hafi komið að um 150 einstaklingar sem unnu að stefnumótuninni þar o.s.frv.

Virðulegi forseti. Ég hafna því að ekki hafi verið haft samráð um þessa hluti og fyrirhugaðar breytingar. Ég vil líka benda á að legið hefur fyrir stefnumótun, bæði af hálfu stjórnmálaflokks míns og reyndar fyrrverandi ráðherra nokkuð langt aftur í tímann, hvað varðar námstímann. Þetta hefur legið fyrir mjög skýrt og lögin sem voru sett um framhaldsskólana 2008 rúma þá nálgun sem við erum að ræða hér hvað varðar námstímann.

Hvað varðar túlkasjóðinn vil ég nefna að sérstök fjárveiting rann til sjóðsins í sumar. Hún var byggð á því mati forstöðumanns Samskiptamiðstöðvarinnar að ákveðna upphæð vantaði til að sjóðurinn gæti sinnt verkefnum sínum. Þeirri upphæð sem hún nefndi var bætt við sjóðinn. Er það nóg? Ég á ekki sérstaklega von á því, ég á alveg eins von á því að við munum standa frammi fyrir því að auka þau framlög. Í sjálfu sér hljótum við öll að geta verið sammála um það að við hljótum að stefna í þá áttina. En ég vil benda á (Forseti hringir.) að í fjárlögunum eru veittar sérstaklega 10 millj. kr. til verkefna sem fela í sér þýðingu á kennsluefni fyrir grunnskóla, (Forseti hringir.) fyrir íslenskt táknmál og móðurmálskennslu reyndar líka í tvítyngi.