145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:50]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar hugleiðingar. Það er alveg hárrétt að þetta snýst ekki bara um krónur og aura og því miður hefur mér stundum fundist vera reynt að beina umræðunni um námsframvinduna og námstímann í framhaldsskólum í það að hér væri einungis verið að reyna að spara peninga þegar hitt er auðvitað augljóst og skiptir mestu máli, það er að koma Íslandi úr þeirri stöðu að við séum sú þjóð sem hefur slökustu námsframvinduna innan OECD, það sé engin þjóð sem hafi jafn lélega námsframvindu eins og við.

Má ég nefna við hv. þingmann að einungis 45% af þeim sem skrá sig í námið — og það eru allir krakkarnir sem koma í framhaldsskólanámið, 98–99% úr árganginum núna fóru í framhaldsskóla — einungis 45% af þeim hópi sem hóf nám á þessum tíma ljúka að meðaltali náminu á fjórum árum. Ef við berum þetta saman við Dani þá ná þeir þessu upp í 60% þannig að það er óeðlilega lítill hluti af hverjum árgangi hér sem klárar námið á réttum tíma. Það vandamál sem hv. þingmaður nefnir hvað varðar fjölda sem kemur upp úr árganginum þá er það þannig að við fáum bara 45% af hverjum árgangi upp sem klárar námið á réttum tíma. Við ættum að vera einhvers staðar í kringum 60%. Bara það eitt mundi auðvitað skapa það vandamál sem hv. þingmaður nefnir. Eigum við þá bara að halda áfram að búa við þessa skelfilegu stöðu að vera eftirbátar annarra þjóða þegar kemur að menntun ungmennanna okkar? Að það sé miklu algengara hér en í öllum löndunum sem við berum okkur saman við hvað varðar lífskjör að okkar unga fólk hverfi frá námi og komi miklu síðar inn þannig að starfsævi þess með nám að baki með full réttindi sé styttra en í öðrum löndum? Eigum við ekki að reyna að brjóta okkur leið út úr þeirri stöðu? Það er alveg nauðsynlegt, hún hefur staðið svo lengi, svo lengi án þess að við höfum gripið til raunverulegra aðgerða. Við þurfum að koma okkur úr þeirri stöðu að meðalaldur þeirra sem útskrifast með BA- eða BS-gráðu í háskólakerfinu á Íslandi sé 30,6 ár. Það er auðvitað óásættanlegt fyrir okkur sem samfélag.

Menntun og vísindi eru grundvöllur nútímahagkerfa (Forseti hringir.) og ef við ætlum að hafa lífskjör í þessu landi sem standast samanburð við það sem best gerist þá er eins gott að menntakerfið okkar standist samanburð við það sem best gerist.