145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

fyrirhuguð sala Landsbankans.

[15:19]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svarið. Ég greini þó reyndar nokkurn áherslumun á milli hans og hæstv. fjármálaráðherra sem talaði hér með þeim hætti í síðustu viku í umræðum um fjárlagafrumvarpið að hugmyndir um að ríkið ætti banka væru úreltar hugmyndir, sem kom mér nokkuð á óvart í ljósi þess að þetta eru nýjar hugmyndir frá samstarfsflokki hans í ríkisstjórn. En gott og vel. Ég veit alveg að þessi heimild hefur verið inni í fjárlögum. Eins og ég kom að í máli mínu hefur það verið almennt í umræðunni að eðlilegra væri að ríkið ætti hlut í banka, en þess vegna hef ég viljað hlusta á hugmyndir Framsóknarflokksins og taldi að eðlilegt væri að við tækjum umræðuna upp á nýtt. Á ég að skilja það sem svo að Framsóknarflokkurinn styðji þá að selja þennan hlut — því að það er vissulega tekið fram að gert sé ráð fyrir því í þessu fjárlagafrumvarpi að 30% hluturinn verði seldur á næsta ári, beinlínis sem leið til lækkunar í arðgreiðslum ríkisins samkvæmt áætlun fjárlaga — en beiti sér fyrir því í gegnum þann eignarhlut (Forseti hringir.) ríkisins sem eftir er að bankinn starfi með öðrum hætti, (Forseti hringir.) því að það er líka mikilvægt að við tökum þá stefnumótandi umræðu um það í þinginu?