145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er hægt að taka undir margt sem hér hefur komið fram. Ég er sammála því að við ættum að hafa það sem almenna reglu að hafa nefndafundi opna og í beinni útsendingu og tæknilega ætti það að vera tiltölulega einfalt ef vilji er fyrir hendi. Ég er sömuleiðis sammála því að við eigum að grípa vel inn í þegar kemur að málefnum flóttamanna, en ég mun ræða það seinna.

En það sem ég vildi ræða hér, og er þar á svipuðum nótum og hv. þm. Ásmundur Friðriksson, er að Björk Vilhelmsdóttir sem hefur verið formaður velferðarráðs í stærsta sveitarfélaginu var í mjög athyglisverðu viðtali í Fréttablaðinu á föstudaginn. Ég hvet alla til að lesa það viðtal sjálfir og mynda sér skoðun í stað þess að lesa það sem er sagt um viðtalið. Þar fannst mér formaður velferðarráðs fara fyrst og fremst með nokkuð sem við getum kallað heilbrigða skynsemi. Ég held að við Íslendingar, alla vega langflestir, kannski allir, viljum hjálpa þeim sem þurfa á aðstoð að halda og viljum gera það eins vel og mögulegt er, en stóra einstaka málið er að við viljum hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Það er grundvallaratriði.

Formaður velferðarráðs fer yfir það að við séum komin í ákveðnar ógöngur hvað það varðar og nefnir t.d. það að ákveðnir félagsráðgjafar telji það vera mannréttindi ef fólk er heima á bótum að reykja kannabis í stað þess að hvetja fólkið og koma því á rétta braut og til starfa í þjóðfélaginu.

Það sem snýr að okkur er að formaður velferðarráðs sagði að á síðasta kjörtímabili hefði verið samið við síðustu ríkisstjórn um breytingar á lögum sem þessi mál snerta, en það hefði verið svikið. Það hefði ekki neitt gerst á þessu kjörtímabili heldur og það snýr að okkur. Ég vil hvetja hv. velferðarnefnd til að fara yfir þessi mál. Það er búið að vinna gríðarlega mikið að þessu máli á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga og mér skilst að það sé þokkaleg samstaða um það og nú snýr málið að okkur.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna