145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[15:20]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, en það sem ég hef fyrst og fremst áhyggjur af, og þær áhyggjur viðraði ég hér áðan, er að ekki er gert ráð fyrir að mjög verði gefið í opinberar framkvæmdir þegar dregur úr atvinnuvegafjárfestingu.

Eins og ég nefndi áðan er þörfin gríðarlega brýn, en í þeim efnahagsforsendum sem frumvarpið byggir á er gert ráð fyrir talsverðri atvinnuvegafjárfestingu 2015 og 2016 sem síðan detti niður 2017 en ekki er gert ráð fyrir sérstakri innspýtingu í opinberar framkvæmdir fyrr en í fyrsta lagi 2019.

Eins og ég fór yfir í mjög stuttu máli er þörfin gríðarlega brýn, t.d. í samgöngumálum svo að maður nefni eitt dæmi þar sem safnast hefur upp ákveðin viðhaldsþörf; því áttar maður sig á þegar maður fer um landið og tekur stöðuna á vegum landsins. Þar held ég til dæmis að mjög skynsamlegt væri að gera ráð fyrir aukinni opinberri fjárfestingu 2017 og 2018.

Hvað varðar skattalækkanirnar finnst mér það vera tvíþætt. Það er í fyrsta lagi kerfisbreytingin sem er boðuð, sem ég er á móti. Ég er á móti því að fækka þrepum í skattkerfinu, ég tel að það dragi úr tekjujöfnunaráhrifum skattkerfisins og ég tel ekki að við höfum efni á að stíga fleiri skref í þá átt að fletja skattkerfið út. Mér finnst núverandi ríkisstjórn ekki hlusta eftir ráðleggingum OECD hvað varðar breytingar á skattkerfum.

Hvað varðar upphæð skattanna, þ.e. hvort lækka eigi skatta óháð kerfisbreytingunni, þá finnst mér að við þurfum auðvitað að hlusta eftir því þegar við sjáum þenslumerki. Ég nefndi til dæmis verðbólguforsendur frumvarpsins, mér finnst að við eigum að hlusta eftir því sem ýmsir aðilar segja að þetta sé kannski óvarlegur tími til að fara í skattalækkanir.

Ég tel það ekki tímabært, í ljósi þess sem við erum að sjá núna í innheimtum skatttekjum að stofnanir eru aðeins að vakna eftir hrun. Við eigum að gefa þeim tíma til að ná enn betri árangri í að ná jafnvægisástandi í efnahagslífinu.