145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[15:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla örstutt að bregðast við því sem kom fram hjá hv. þingmanni að ég hefði sagt að mér þætti laun hækka um of eða að einhverjir hefðu fengið of miklar hækkanir. Það sem ég er að benda á í þeirri umræðu er að ytri mörk eru á því hvað við getum hækkað laun á hverjum tíma án þess að kalla yfir okkur verðbólgu og þar með hærra vaxtastig. Það eru hreinlega efnahagslegar staðreyndir sem búa því að baki að þeir sem hækka laun að jafnaði meira en framleiðslan vex, þeir draga smám saman úr verðgildi gjaldmiðilsins. Við höfum langa sögu, áratugalanga sögu dæma um að við höfum hækkað laun umfram það sem framleiðslugetan er að vaxa og þar af leiðandi er saga okkar mörkuð af víxlverkunum launa og verðlags, eins og svo frægt er orðið.

Það sem ég hef verið að benda á að undanförnu er að nýlega gerðir kjarasamningar eru alveg örugglega að setja mikinn þrýsting á að þessi keðjuverkun fari af stað. Ég tel að hægt sé að grípa til ráðstöfunar til að bregðast við því. Það ræður miklu hvernig spilast úr næstu lotum í þessu, hvort menn ætli að láta reyna á forsenduákvæði o.s.frv. En allt leiðir þetta mig að þeirri niðurstöðu að við þurfum að endurskoða vinnumarkaðslíkanið á Íslandi, komast að betri niðurstöðu um hvernig við leiðum fram niðurstöðu kjarasamninga, og þetta snýst á endanum einmitt um að hækka launin. Að gera betur, að láta kaupmáttinn vaxa en ekki bara nafnlaunin og krónufjöldann á launaseðlinum, heldur kaupmáttinn sjálfan. Ég er því einmitt á þeirri skoðun eins og hv. þingmaður að við þurfum að finna leiðir til þess að hækka launin, (Forseti hringir.) það þurfa bara að vera raunverulegar hækkanir, ekki skammvinnar sem verðbólgan síðan hreinsar upp.