145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[17:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst þetta einhvern veginn vera ávísun á að við séum aðeins að missa einbeitinguna og agann aftur. Þetta er orðið aðeins of þægilegt og menn eru bara búnir að gleyma svo miklu. Segjum sem svo að það slái harkalega í bakseglin í efnahagsmálum í heiminum, og margir spá nú slíku, kannski innan einhverra tveggja, þriggja ára og þær öldur berist til Íslands og við lendum hérna í vandræðum. Það þyrfti ekkert endilega að vera vegna þess að við hefðum klúðrað málum stórkostlega sjálf. Gæti fjármálaráðherra sem þá mun sitja verið í þeirri dapurlegu stöðu að þurfa að fara að reyna að nudda tekjustofnunum upp aftur af því að allt í einu hyrfu verulegar tekjur út, ef þenslan hyrfi allt í einu úr hagkerfinu? Er ástæða til þess að búa sér til jafnvel svoleiðis möguleika með því að fara of ógætilega og af of mikilli léttúð af stað í það að lækka tekjur ríkisins í stórum stíl út og suður, fara í alls konar breytingar sem allar með einni undantekningu hafa það sammerkt að þær eru gerðar á kostnað tekna ríkisins, allar?

Ég hef líka nefnt inn í þetta samhengi afkomu sveitarfélaganna sem því miður er að versna. Nánast öll stóru sveitarfélögin gera upp með verri útkomu núna og ég vil horfa til afkomu hins opinbera í heild. Er skynsamlegt að ríkið sé þá að veikja stöðu sína með þessum hætti þegar maður horfir yfir línuna og sér að sveitarfélögin eru kannski í vaxandi erfiðleikum og hefðu þörf fyrir að styrkja sína tekjustofna? Til dæmis í staðinn fyrir að ríkið lækkaði skattana svona mikið hjá sér, þá yfirfærði það að einhverju leyti einhverjar tekjur til sveitarfélaganna til að bæta afkomu þeirra. Valkostirnir í þessu eru ótal margir og mér finnst þeim ekkert hafa verið svarað. (Forseti hringir.) Það er bara vaðið áfram vegna þess að það er svo gaman að geta sagt að maður sé að lækka skatta.