145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:13]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú verð ég bara að játa það að ég var ekki viðstaddur þegar hæstv. ráðherra flutti ræðu sína með þessu frumvarpi og umræðu hans um umhverfisvænu bílana á móti því hvernig greitt er til ríkissjóðs vegna notkunar þeirra. Ég hef, eins og ég sagði áðan, margoft rætt þetta. Það er gat í kerfinu. Við á Alþingi látum þetta eiga sig og svörum ekki þeim spurningum sem þarf að svara. Mér finnst það ósanngjarnt. Við eigum að svara þessum spurningum vegna þess að fólk á að vita það þegar það er að ákveða hvort það ætlar að kaupa svona bíl eða annan, hvað greitt er af þessum bílum í sameiginlegan sjóð okkar til að viðhalda og byggja upp vegakerfið í landinu. Það er ekki sanngjarnt að tveir aðilar keyri, við skulum segja norður í land til Akureyrar og hefðbundinn jeppi, dísilbíll, eyði olíu fyrir 25 þús. kr. — ætli það séu ekki 15 þús. kr. af því eða upp undir 17.500 sem rennur í ríkissjóð? — og annar aðili keyrir á eftir viðkomandi bíl eða undan, eftir atvikum, á rafmagnsbíl og borgar ekkert til ríkissjóðs í vegakerfið en báðir bílarnir slíta því jafn mikið. Ég fagna því að fjármálaráðherra skuli hafa tekið þetta til umræðu vegna þess að við sem sitjum á Alþingi og allir stjórnmálaflokkar sem eru unnendur þess að fjölga vistvænum bílum í bílaflota landsmanna verðum að svara þessu fyrr en seinna.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan: Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við eigum að taka upp þá tækni sem er að ryðja sér til rúms og er orðin staðalbúnaður á ýmsum nýjum bílum, þ.e. ákveðnir kubbar sem mæla hvert bílarnir fara, hvar er ekið o.s.frv., og það sé greitt eftir því. Ef menn keyra í gegnum gjaldskyld göng borga menn eftir því. Persónuverndarsjónarmið komu alltaf í veg fyrir það en úti í hinum stóra heimi, úti í hinu stóra kaupfélagi sem heitir Evrópusambandið (Forseti hringir.) hafa menn lokið þessari vinnu og komin er sátt um það.