145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:31]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eins hjá hv. þingmanni og öðrum úr hennar flokki og í stjórnarandstöðunni að þau eru með böggum hildar yfir skattalækkunum.

Ég man ekki þá tíð, nú er ég orðinn tiltölulega fullorðinn maður, að einhvern tímann hafi verið skilyrði hjá vinstri mönnum til að lækka skatta, ég man aldrei eftir því. (Gripið fram í: Það er af því að þú hefur ekki fylgst með.) — Jú, ég hef fylgst með. Ég man aldrei eftir því að það hafi verið skilyrði og ég man aldrei eftir því að vilji hafi verið til þess.

Ég upplifi það þannig að menn haldi á þessum væng stjórnmálanna að þessi blessaða kaka geti aldrei minnkað, það sé bara spurning hvað hið opinbera taki mikið af henni. Þess vegna tala menn um að við séum að afsala okkur tekjum, kasta frá okkur og gefa. Það er enginn að velta fyrir sér: Bíddu, með því að lækka skatta, getur það ekki leitt til meiri tekna fyrir ríkissjóð til að setja í þessi velferðarmál, að það verði þá einhver fjárfesting?

Menn vita að þegar stjórn er við völd eins og sú ríkisstjórn sem nú er þá geta þeir tekið áhættu og fjárfest, þeir vita að skattarnir verða ekki bara hækkaðir sisona af því að við þurfum að gera eitthvað. Þetta er það sem skiptir máli. Þetta er ekki eitthvert excel-skjal sem er bara óbreytanleg stærð. Þetta er bara spurning um hvað við þurfum að taka mikið og hvað við viljum taka mikið. Við þurfum að gera það. (Gripið fram í: … fyrir hrun, hvernig endaði það?) Svona er þetta. — Tekjur ríkissjóðs jukust jafnt og þétt, það er það sem gerðist. Ég get alveg fullvissað ykkur um að það munu ekki verða meiri peningar til að bæta kjör öryrkja og aldraðra, (Forseti hringir.) velferðarþjónustuna, með því að hækka stöðugt skatta.