145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu ræðu þar sem vakið er máls á nokkrum mikilvægum atriðum í frumvarpinu. Fyrst varðandi skattbreytingar í frumvarpinu þarf að gæta að því að þó að tekjuviðmiðið milli neðra og efra þrepsins breytist, þ.e. að menn fari í efstu prósentuna í 700 þús. kr. í tekjur með breytingunum en ekki ríflega 830 þús. kr. eins og það er í dag, þá nýtur sá sem hefur rétt yfir 700 þús. kr. góðs af skattalækkuninni upp að 700 þús. kr. og hefur þannig fengið lægri skattbyrði. Og það er alveg óhætt að fullyrða að ekki er verið að hækka skatta á nokkurn mann með breytingunni heldur eru skattar allra að lækka. Mest lækka skattarnir í millitekjuhópunum.

Ég ætla að segja örstutt varðandi kirkjuframlögin að þau eru í samræmi við samninga um þessi efni sem gerðir voru og ættu í sjálfu sér ekki að koma á óvart nema að menn vilji tala fyrir því að ganga á bak áður gerðum samningum. Um leigumarkaðinn þá fagna ég því að tekið sé vel í lægri skatta á útleigu húsnæðis og vil svara því til að þetta á við um langtímaútleigu.

Kallað er eftir fleiri úrræðum. Ég segi varðandi þau mál: Þetta er vandasamur málaflokkur. Maður þarf að gæta að því að úrræði stjórnvalda gangi ekki á endanum öll beint í vasa leigusalanna og það þarf að líta til þess sem vel hefur reynst annars staðar í því efni, að lækka byggingarkostnað, tryggja nægilegt framboð af lóðum fyrir húsnæði af þessum toga. Síðast en ekki síst er stærsta hagsmunamálið fyrir leigjendur, (Forseti hringir.) eins og aðra sem vilja afla sér húsnæðis, að lækka vaxtastigið á landinu.