145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:53]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Þetta hafa verið fróðlegar og frísklegar umræður oft á tíðum hér í dag. Ég ætla að halda áfram þar sem hæstv. fjármálaráðherra sleit þráðinn áðan. Ég er honum sammála um að við eigum að gera það sem hægt er til að gera fólki kleift að eignast þak yfir höfuðið og ég tel það reyndar einn af svörtustu blettunum í okkar samfélagi hvernig þróunin hefur verið varðandi möguleika gagnvart því. Hins vegar verð ég þó að minna hann á hans eigin hugmyndafræði, sem er reyndar líka mín, þ.e. að menn verða að eiga kost á vali. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram í umræðunni að sumir kjósa það einfaldlega, sérstaklega fyrri hluta ævi sinnar, að vera leigutakar, þ.e. að leigja húsnæði í staðinn fyrir það að reisa sér þá erfiðleika sem felast í því að verða sér úti um eigið fé til að geta lagt inn í íbúð. Þetta finnst mér hafa færst í aukana á síðustu árum vegna þess að hreyfanleiki fólks er miklu meiri, fólk velur sér lífsstíl sem felst í því að það flytur sig ekki bara milli landshluta heldur aðallega millum landa. Það er kannski ekki síst þegar líður á miðjan aldur sem slíkir farfuglar fara að hugsa til þessa. En út frá því að menn verða að eiga val þá finnst mér að það skipti mjög miklu máli að hér sé með skipulagðari hætti af hálfu stjórnvaldsins þróaður leigumarkaður sem geri það að raunverulegum valkosti fyrir fólk að haga búsetu út frá því.

Hæstv. ráðherra nefndi dæmið í Þýskalandi og að á þeim þróaða leigumarkaði, sem er reyndar svipaður og víða á Norðurlöndum, kæmi upp sú staða að þegar menn væru komnir á lífeyrisaldurinn stæðu þeir skyndilega frammi fyrir því að þá kynni að skorta fé til að haga sínum lífsstíl í samræmi við það sem þeir vildu ef til vill frekar kjósa. En ég hef ekki orðið var við það í umræðunni að þetta sé neitt vandamál í Þýskalandi, enn síður í Svíþjóð þar sem leigumarkaðurinn er háþróaður.

Hér urðu orðaskipti áðan á milli hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur og fyrrverandi formanns Lögmannafélagsins, hv. þm. Brynjars Níelssonar, sem mér fannst í reynd fela í sér kjarnann í skilningi á því af hverju við búum við gott samfélag, búum í góðu samfélagi. Ég sagði fyrr í dag að ég teldi að Ísland væri, hvað sem menn segðu og að því fyndu, mjög gott samfélag. Það er ekki síst vegna þess að í áranna rás hafa tekist á mismunandi hugmyndastefnur og það er í krafti þeirra sem menn hafa vegist á með rökum. Hugmyndir hafa keppt, pólitískir flokkar hafa keppt og oft á tíðum hafa þessi átök verið óvægin en saman hefur orðið til niðurstaða úr þessari baráttu sem gerir að verkum að okkar samfélag er betra samfélag en mörg önnur. Og ef menn skoða stjórnmálin á Íslandi og í öðrum löndum þá er mjög áberandi hvað stjórnmál hér á landi hafa verið miklu óvægnari, hvað átakalínurnar hafa verið harðari og skýrari en víða annars staðar. Og ég velti því fyrir mér hvort það hafi átt sinn þátt í því, einkum fyrr á árum, að menn náðu því að búa hér til samfélag þar sem hlutirnir voru í þokkalegu lagi.

Ég sagði hér áðan samfélagið væri gott en við höfum heyrt það hér í dag eins og svo oft áður að það er svo margt sem er að. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir benti á að heilbrigðiskerfið væri alls ekki í góðu lagi. Það kann vel að vera að það sé fjarri því sem við vildum hafa það en heilbrigðiskerfið á Íslandi er samt sem áður þannig, þó að stöðugt sé verið að tala það niður, að ef einhver okkur sem situr í þessum sölum þarf fyrir örlaganna vilja að lenda í einhvers konar verulegu áfalli, þá er eins gott að viðkomandi sé staddur á Íslandi. Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að hægt sé að benda á marga galla heilbrigðiskerfisins er hvergi betra að verða fyrir áfalli en í skjóli þess. Það er bara staðreynd. Þetta eru tölulegar staðreyndir sem óbreyttar eftir hrun og án þess að ég ætli að fara langt út í þá umræðu er það samt sem áður þannig að þegar menn tala um það að fólk sé að flýja heilbrigðisgeirann á Íslandi þá verður að horfa til þess að eftir síðustu kjarasamninga er heldur betur búið að bæta hlut þeirra sem þar starfa eða að minnsta kosti fengu að semja um sín kjör. Það er rétt að rifja það upp þegar verið er að tala um háan meðalaldur lækna og þar sé vá fyrir dyrum að árið 2004 voru nákvæmlega nánast jafn mörg stöðugildi á Landspítalanum hvað lækna varðar og í dag og meðalaldurinn var nákvæmlega sá sami, bara svo það liggi fyrir.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði vissulega að á síðasta ári hefði spítalinn fallið um deild vegna þeirra miklu vinnudeilna sem þar voru. Við skulum vona að það sé liðin tíð þótt ýmislegt bendi til þess að svo sé kannski ekki alveg. Þetta finnst mér nauðsynlegt að komi fram vegna þess að þokkaleg sátt hefur verið um það hvernig við höfum skipt þjóðartekjunum og hér á Íslandi hefur samneysla verið meiri en víða annars staðar. Ég veit ekki hver standardinn var á hagfræðilegri umræðu hjá Lögmannafélaginu á þeim tíma þegar hv. þm. Brynjar Níelsson var þar formaður en að hugsa sér að sá góði drengur og klóki komi hingað og færi fram það sem ýmist er kallað vúdúhagfræði eða brauðmolakenningin. Hún náði vissulega ákveðnu risi undir Ronald Reagan Bandaríkjaforseta, en hann skildi Bandaríkin eftir í skuldalegri rúst og það þurfti demókrata til að bjarga því og ég ætla ekkert að fara út í það frekar. Við þurfum alltaf að finna rétt jafnvægi millum skattheimtunnar og eyðslunnar og það er hárrétt og var um það bil það eina sem ég var sammála hv. þm. Brynjari Níelssyni í leiftursnöggri atlögu hans að sósíaldemókratískum hugsjónum áðan þegar hann sagði að hægt væri að draga úr frumkvæði og framtaki með of hárri skattlagningu. En Ísland er víðs fjarri því og af því að hæstv. fjármálaráðherra vísar til þess aftur og aftur, þegar hann er sleginn svolítilli sekt yfir því hvað hann er að gera, að við sem sátum í síðustu ríkisstjórn hefðum fært skattana úr öllu lagi, þá er rétt að rifja það upp að úttekt OECD sýndi að við sátum einhvers staðar miðja vegu á skattstiganum. Þó vorum við samfélag sem hafði lent í verulegum áföllum.

Vitaskuld er það rétt hjá hæstv. ráðherra að við þær aðstæður var ekki hægt að gera annað en að hækka skatta og klípa af samneyslunni hvar sem var og stundum var skorið inn að beinum og stundum inn í bein en það var eini kosturinn sem var í þeirri stöðu. Og þegar hæstv. fjármálaráðherra kemur og segir: Við erum bara að skila til baka þeim sköttum sem settir voru á millitekjufólk í tíð síðustu ríkisstjórnar — ja, herra trúr, hvað áttu menn að gera annað? Það var engin völ á neinu öðru. Þó var í þeim aðgerðum öllum eigi að síður gætt að sjá til þess að bótakerfinu, sem vissulega var líka skorið, var breytt þannig að það verndaði þá tekjulægstu og þá sem verst voru settir. Þess vegna þótti mér vænt um að lesa það á bls. 20 í greinargerð með þessu frumvarpi að þar er farið yfir þær breytingar sem gerðar voru í tíð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar í fjármálaráðuneytinu og þar er bókstaflega sagt, með leyfi forseta, „jafnframt því að bótunum var í meira mæli beint til þeirra fjölskyldna sem voru með lægri tekjur og minni eignir“. Það vill svo til að ef maður klárar að lesa þessa málsgrein þá kemur í ljós að hæstv. fjármálaráðherra er sammála þessum gerningi að því marki að hann hyggst ekki breyta bráðabirgðaákvæði sem framlengdi hann fyrr en hæstv. félagsmálaráðherra er búinn að koma með nýtt húsnæðisbótakerfi. Með öðrum orðum, ég les út úr þessu þann dóm hjá núverandi hæstv. fjármálaráðherra að hann hafi talið þennan gerning réttan á sínum tíma.

Í þessari umræðu sem mér finnst hafa verið óvanalega efnisrík hafa menn auðvitað reynt að svara þessum spurningum: Hvernig eigum við að búa til tekjur ríkisins og hvernig eigum við að eyða þeim? Þegar ég sagði að hæstv. fjármálaráðherra hefði borið svolitla sekt í augum þá er það vegna þess að ég tel hann varkáran fjármálaráðherra. Og ég set spurningarmerki við þann einbeitta ásetning hans að ætla sér við þessar aðstæður að lækka tekjuskatta og ekki bara núna, hann gerði það í fyrra og hann boðaði að þegar þeirri lækkunarhrinu slotaði yrði hann búinn að lækka tekjuskatt um 3,3%. Og það er auðvitað óskaplega gaman fyrir okkur hv. þingmann og fyrrverandi formann Lögmannafélagsins að fá 3 þúsund kall extra í vasann í hverjum mánuði og mjög margir verða ríkisstjórninni þakklátir fyrir það, en það breytir ekki hinu að þetta er gert andspænis því að Seðlabankinn telur að þetta sé ekki ráðlegt. Þetta er gert andspænis því að meira að segja framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins telur að þetta sé ekki ráðlegt. Og hvað er það sem vekur þessa varúð hjá þessum tveimur stofnunum, SA og Seðlabankanum? Jú, það er framtíðin. Og framtíðin er eins og hún hefur verið teiknuð upp allar götur frá miðju ári 2010 þegar núverandi hagvaxtarskeið hófst að hér hefur verið hagvöxtur svo að segja á jafnri línu og hann mun halda áfram. Hann er í dag ábyggilega nálægt 5%. En á næsta ári gerist það að hér verða stórfelldar framkvæmdir sem eiga allar að byrja á næsta ári — raunar bara til að upplýsa vin minn, fyrrverandi formann Lögmannafélagsins, eru það allt saman framkvæmdir sem brautin var rudd fyrir í tíð síðustu ríkisstjórnar, maður sér engar nýjar framkvæmdir á dagskrá sem ekki voru teiknaðar upp þá. Ef maður leggur þær framkvæmdir saman þá slaga þær upp í Kárahnjúkavirkjun, með þeirri orkuöflun sem þarf til að knýja þær. Það var akkúrat það sem gerðist á sínum tíma þegar menn réðust í Kárahnjúkavirkjun og orkuvirkjun sem því tengdust og lækkuðu skatta samhliða, það voru ástæðurnar sem kollegar hv. þm. Brynjars Níelssonar, að minnsta kosti að hluta til kollegar hans, sem sátu í rannsóknarnefnd Alþingis nefndu, þetta tvennt, þessi blanda, þetta var hinn eitraði kokteill ásamt húsnæðislánum sem leiddi til þeirrar stöðu sem kom upp 2008. Við megum ekki gleyma þessu. Þetta þurfum við að hafa í huga. Þetta var það sem olli mínum varúðarorðum.

Hvað eigum við að gera við þá peninga sem hugsanlega geta orðið til og hefðu getað orðið til ef ríkisstjórnin hefði nýtt öll sín færi? Eitt sagði hæstv. ráðherra sem ég er sammála, raunar margt sem ég var alveg sammála en einu sérstaklega: Verkefnið er að lækka skuldir. Það má lesa það út úr greinargerðinni að ríkisstjórnin sé í reynd að lækka skatta eða hafi gert það á sínum ferli um eitthvað sem er á ársgrundvelli milli 40 og 50 milljarðar. Menn berja sér örugglega á brjóst og segja: Góðir erum vér. En þetta eru 500 milljarðar á tíu árum. Þessa peninga hefði verið hægt að nota til að lækka skuldir ríkisins, til að búa okkur undir framtíðina, búa okkur undir hugsanleg áföll sem ef til vill yrðu ekki okkur að kenna heldur vegna breytinga í heiminum. Ég nefni þetta vegna þess að ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra að verkefnið er að lækka skuldir en ég er ekki viss um að hann sé að beita algerlega réttum ráðum til þess. Þá segi ég það auðvitað að ég veit ekki nákvæmlega með hvaða hætti á að nýta það fé sem kemur í ríkissjóð vegna hinna merku stöðugleikaframlaga vegna þess að mér er það ekki algerlega ljóst. Það getur vel verið að það breyti þessari stöðu en núna er ég þeirrar skoðunar að við hefðum frekar átt að reyna að búa til meiri afgang til þess að lækka skuldir.

Svona í blálokin, ég ætlaði að fjalla hér að verulegu leyti um tollalækkanirnar, það kann að hljóta þverstæðukennt en ég vil samt segja að ég er þeirrar skoðunar að þar sé hæstv. fjármálaráðherra að gera rétt. Ég styð þær aðgerðir og ég gæti rökstutt það í lengra máli. Það er ekki oft sem ég held því fram að fjármálaráðuneytið vanreikni en mér er til efs að starfsmenn og embættismenn ráðuneytisins hafi fyllilega gert sér grein fyrir þeim auknu tekjum af virðisaukaskatti sem munu renna í ríkissjóð þegar verslun mun færast aftur inn í landið vegna þess að þessar breytingar gera það að verkum að íslensk verslun verður aftur samkeppnishæf, t.d. í hlutum eins og skóm. Reyndar mun þá hluti af þessari verslun skapa færi til hvað ódýrustu viðskipta í Evrópu. Ég er sannfærður um að menn munu sjá mjög mikla aukningu í þessu (Forseti hringir.) og það kann að fara langa leið með að vega upp á móti því sem menn kalla tap í tollum.