145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[19:35]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni varðandi samanburðinn að hann er flókinn og ekki einfaldur eins og ég tók rækilega fram í mínu máli og vísaði þar m.a. til lífeyrisskuldbindinga. En engu að síður hygg ég að þessar töflur sem OECD reiðir fram horfi til margvíslegra þátta og þar eru þessir fyrirvarar settir. Þá kemur í ljós að við erum neðar Norðurlöndunum en með hærri skattbyrðar en Bandaríkin t.d. og Vesturheimur, Kanada svo dæmi sé tekið. En þar er líka miklu dýrara eins og ég sagði að afla menntunar og síðan að sækja heilbrigðismálin.

Varðandi skattkerfið til tekjujöfnunar þá finnst mér gott og ég vil þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir að vilja kannast við sjálfan sig að hann er hægri maður sem smellpassar inn í þá formúlu sem ég dró hér upp. Hún er sú að almennt eru hægri menn á því máli að tekjujöfnunin gegnum skattkerfið sé ekki til hagsbóta fyrir samfélagið. Ég er að færa rök fyrir því að hún sé það og að við getum ekki lagt að jöfnu einstaklinga með annars vegar undir 300 þús. kr. á mánuði og annan með milljón eða 2 millj. kr. á mánuði. Og ég get upplýst um það að sú var tíðin að jafnvel í Bandaríkjunum voru menn ófeimnari við að skattleggja ofurtekjur með ofursköttum. Það mun hafa verið repúblikaninn Dwight Eisenhower sem var forseti Bandaríkjanna eftir seinna stríð sem stóð fyrir auðlegðarskatti í Bandaríkjunum. Hvað skyldi hann hafa verið hár? Hann var 92%.