145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um um skipulag alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands í annað sinn. Frumvarpið var lagt fyrir á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga þá. Frumvarpið er nú lagt fram efnislega óbreytt. Eftir sem áður er miðað við að starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar sameinist utanríkisráðuneyti um áramót og að öllum ótímabundið ráðnum starfsmönnum verði boðin störf þar. Ráðuneytið tekur einnig yfir tímabundna samninga og uppfyllir þá samkvæmt efni sínu. Breytingar sem frumvarpið hefur tekið eru nær eingöngu tæknilegs eðlis til að endurspegla að það er nú til umfjöllunar á nýju þingi, en einnig hefur verið tekið mið af ábendingum utanríkismálanefndar um nákvæmari skýringar í athugasemdum við frumvarpið.

Alþjóðleg þróunarsamvinna er ein af meginstoðum utanríkisstefnu Íslands og einn stærsti einstaki málaflokkurinn sem utanríkisráðuneytið sinnir. Fyrstu lögin um þátttöku Íslands í aðstoð við þróunarlönd voru sett árið 1971. Þau voru síðan leyst af hólmi 1981 með lögum um Þróunarsamvinnustofnun. Loks voru núgildandi lög sett árið 2008 og tóku þá í fyrsta sinn til málaflokksins í heild en ekki aðeins tvíhliða aðstoðar eins og hafði verið fram að því. Alþjóðleg þróunarsamvinna er málaflokkur sem markast af mikilli samvinnu innlendra og erlendra aðila, borgarasamtaka, stjórnsýsluaðila, samstarfslanda og alþjóðastofnana. Vegna þess hve mikilvægur málaflokkurinn er fyrir heimsbyggðina og hve rík krafa er um hámarksárangur er stefnumótun og skipulag þróunarsamvinnu í stöðugri þróun.

Lögin frá 2008 hafa stuðlað að ýmsum framförum, svo sem auknu samstarfi og samhæfingu starfa ÞSSÍ og utanríkisráðuneytisins. Þá hefur samhæfing tvíhliða og fjölþjóðlegs starfs aukist umtalsvert með tilkomu þingsályktunar um þróunarsamvinnuáætlun til fjögurra ára í senn sem Alþingi hefur tvisvar samþykkt. Þrátt fyrir þessar framfarir er enn töluvert svigrúm til að bæta starfið, enda er það vilji okkar allra að hámarka árangurinn af þeim framlögum sem Ísland veitir til málaflokksins. Áður en Ísland gerðist aðili að þróunarsamvinnunefnd OECD, DAC, árið 2013 var unnin sérstök úttekt á umgjörð alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands. Meðal ábendinga sem þar komu fram var að mikilvægt væri fyrir íslensk stjórnvöld að leggja mat á skipulag og fyrirkomulag þróunarsamvinnu út frá því hvernig hámarksárangur og skilvirkni væru tryggð með tilliti til smæðar landsins sem gjafaríkis.

Með þetta í huga var utanaðkomandi sérfræðingi, Þóri Guðmundssyni, falið að greina skipulag og fyrirkomulag þróunarsamvinnu, friðargæslu og neyðar- og mannúðaraðstoðar Íslands í lok árs 2013. Þórir skilaði skýrslu sinni í júlí 2014 þar sem fram komu margvíslegar tillögur til úrbóta. Frumvarpið sem hér er mælt fyrir er byggt á þessum tillögum, en það er samið af starfshópi skipuðum fulltrúum bæði utanríkisráðuneytis og Þróunarsamvinnustofnunar.

Ég mun nú víkja að helstu breytingum sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Ég bendi einnig á skýrslu sem dreift var á Alþingi í maí síðastliðinn samkvæmt beiðni en þar er farið nánar inn á ýmis atriði er tengjast fyrirhuguðum breytingum.

Stærsta breytingin lýtur að því að starfsemi ÞSSÍ verður sameinuð utanríkisráðuneytinu. Það gerist með ákvæði í 2. gr. frumvarpsins sem mælir fyrir um að það sé ráðuneytið sem annist alþjóðlega þróunarsamvinnu, bæði fjölþjóðlega og tvíhliða, en það er tvíhliða aðstoðin sem ÞSSÍ hefur fram til þessa haft á hendi. Af þessu leiðir að ÞSSÍ hættir starfsemi og ráðuneytið yfirtekur allar skuldbindingar stofnunarinnar, samanber ný bráðabirgðaákvæði I og III í 11. gr. frumvarpsins.

Röksemdirnar fyrir því að færa starfsemi ÞSSÍ inn í ráðuneytið eru margar en þó aðallega af tvennum meiði. Annars vegar snúa þær að því að styrkja tengsl milli þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála og hins vegar að samlegðaráhrifum og hagkvæmni.

Röksemdunum eru gerð ítarleg skil í athugasemdum við frumvarpið en ég stikla hér aðeins á stóru.

Með því að færa starfsemi ÞSSÍ inn í ráðuneytið er tryggt að öll samskipti við erlend ríki og stofnanir á sviði þróunarsamvinnu séu samstillt og í takt við utanríkisstefnu Íslands, auk þess sem íslensk stjórnvöld tala þá einni röddu um þróunarsamvinnu á alþjóðavettvangi.

Hvað viðvíkur samlegðaráhrifum og aukinni hagkvæmni vitum við öll að íslensk stjórnsýsla er lítil og fámenn þar sem hver starfsmaður þarf að sinna margvíslegum verkefnum. Einfaldara og markvissara skipulag eykur líkur á að markmið og áherslur Íslands á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu nái fram að ganga og skili sér í skilvirkari þróunarsamvinnu. Það er einnig gott að hafa í huga að aðferðafræði og hlutverk ÞSSÍ hefur breyst og framkvæmdin í auknum mæli færst yfir á innlenda aðila í samstarfslöndum Íslands, svo sem héraðsstjórnir.

Starfsemi ÞSSÍ, á vettvangi tvíhliða þróunarsamvinnu, er því í æ ríkara mæli sambærileg við það sem þróunarsamvinnuskrifstofa utanríkisráðuneytisins vinnur að á vettvangi fjölþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Rétt er að árétta að þótt skipulag, stjórn og eftirlit með þróunarsamvinnu færist til utanríkisráðuneytisins verður unnið að tvíhliða þróunarsamvinnu í samstarfslöndum Íslands með sama hætti og verið hefur. Við munum einnig að sjálfsögðu halda áfram að taka mið af bestu starfsvenjum, alþjóðlegum samþykktum um skilvirkni þróunarsamvinnu og þeirri miklu reynslu Íslands á þessu sviði sem safnast hefur saman í áranna rás.

Í lagafrumvarpinu eru ákvæði er lúta að starfsmannamálum í nýjum bráðabirgðaákvæðum II og III í 11. gr. frumvarpsins. Markmið ákvæðanna er að tryggja öllum starfsmönnum ÞSSÍ, hvort sem þeir eru við störf í Reykjavík eða umdæmisskrifstofum ÞSSÍ erlendis, sambærileg störf í þjónustu ráðuneytisins þegar starfsemi stofnunarinnar færist þangað.

Í fyrsta lagi er lagt til í bráðabirgðaákvæði II að ráðuneytið yfirtaki allar skuldbindingar vegna samninga ÞSSÍ. Í öðru lagi er með bráðabirgðaákvæði III lagt til að öllum fastráðnum starfsmönnum ÞSSÍ verði boðin störf í ráðuneytinu.

Önnur tillaga í frumvarpinu snýr að stofnun nýrrar þróunarsamvinnunefndar, samanber 3. gr. frumvarpsins, sem kemur þá í stað bæði núverandi þróunarsamvinnunefndar samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laganna og samstarfsráðs um alþjóðlega þróunarsamvinnu samkvæmt 4. gr. laganna. Hlutverk hennar er að vera ráðgefandi við stefnumarkandi ákvörðunartöku um alþjóðlega þróunarsamvinnu til lengri tíma og fylgjast með framkvæmd hennar. Lagt er til að nefndin verði meðal annars skipuð fimm alþingismönnum og að hún fundi reglulega með ráðherra.

Mikilvægt hefur einnig þótt að samráð sé haft við hagsmunaaðila, svo sem háskólasamfélagið, aðila vinnumarkaðarins og félagasamtök. Reynslan hefur sýnt að á núgildandi fyrirkomulagi eru nokkrir annmarkar. Verkefni samstarfsráðsins og þróunarsamvinnunefndar skarast og verkaskipting milli þeirra er óljós, en ekki hefur tekist að bæta úr þessu í framkvæmd.

Þá er í skýrslu Þóris Guðmundssonar komist að þeirri niðurstöðu að vegna sérstöðu þessa málaflokks sé mikilvægt að þingmenn hafi beina aðkomu að eftirliti með þróunarsamvinnu. Í ljósi þessa er lagt til að í lögunum verði einn ráðgefandi aðili, þróunarsamvinnunefnd, en ekki tveir, þ.e. samstarfsráð um alþjóðlega þróunarsamvinnu og þróunarsamvinnunefnd. Samkvæmt þeirri tillögu sitja alþingismenn í þróunarsamvinnunefnd með fulltrúum sem rætur eiga í háskólasamfélaginu, vinnumarkaðnum og borgarasamtökum, auk formanns. Aðkoma Alþingis er því eins trygg og mögulegt er án þess að stofnað sé til sérstakrar þingmannanefndar.

Þá er gerð tillaga um breytingu hvað varðar stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu sem verði lögð fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu fimmta hvert ár, samanber 5. gr. frumvarpsins. Einnig er gerð tillaga um að færa saman í eina grein ákvæði laganna sem fjalla um framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu, samanber 6. gr. frumvarpsins. Þá skal kveðið nánar á um framkvæmd stefnunnar í aðgerðaáætlun sem endurskoðuð er á tveggja ára fresti.

Þessi breyting er lögð til þar sem í lögunum er kveðið á um að leggja skuli fram eitt skjal sem inniheldur bæði stefnumörkun og aðgerðaáætlun. Eðli málsins samkvæmt er stefna mörkuð til langs tíma en aðgerðaáætlun þarfnast tíðari endurskoðunar. Þykir því heppilegt að hafa það tvennt aðgreint.

Að lokum eru gerðar tillögur að breytingu á ákvæði laga um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu þar sem tilgreint er hvaða aðgerðir heyra meðal annars undir friðargæsluverkefni. Þessar breytingar á aðgerðum miða að því að mæta þeirri þróun sem átt hefur sér stað í því alþjóðlega umhverfi sem friðargæslan starfar í, breyttri framkvæmd og áherslum.

Margir gætu spurt sig: Því að breyta því sem vel gengur? Svar mitt er einfaldlega að það gerum við til að gera enn betur og ná enn meiri árangri. Það er öllum í hag, bæði starfsmönnum og haghöfum, að fyrirkomulag þróunarsamvinnu Íslands sé vel skipulagt og skilvirkt og mæti þeim ört vaxandi alþjóðlegu kröfum sem gerðar eru til ábyrgrar stjórnar og stefnu á þessu sviði.

Breytingarnar sem nú standa fyrir dyrum eru fyrst og fremst á stjórnskipulagi þróunarsamvinnu en markmið þeirra er að breyta til að bæta og styrkja alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ég hef þegar falið starfshópnum sem samdi frumvarpið að vinna að nauðsynlegum undirbúningi þessara breytinga. Í því felst meðal annars að starfshópurinn vinni tillögur að nýju skipulagi þróunarsamvinnu í utanríkisráðuneytinu, þar með talið eftirliti og úttekt, fjármálaumsjón, verkaskiptingu innan þróunarsamvinnuskrifstofu og gagnvart öðrum skrifstofum ráðuneytisins. Gæta þarf vandlega að réttinda- og hagsmunamálum starfsmanna og sinna öðrum nauðsynlegum undirbúningsatriðum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. utanríkismálanefndar.