145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:02]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held frekar að þróunin sé í átt frá þessu. Hitt er alveg klárt að svona var þetta. Hér á árum fyrri voru þeir sem véluðu um íslensk utanríkismál oft barðir fast því að menn sem töldu sig sjá einhvers konar tækifæri fyrir útflutning frá Íslandi og bentu á dæmi af Danmörku og Svíþjóð, einkum þó Danmörku þar sem utanríkisviðskipti voru nánast tengd dálítið þétt við þróunarsamvinnu. Svona var þetta og vitaskuld er þetta svona í einhverjum mæli enn. Klárt er að þróunarframlög eins og þau sem við erum með og sumar þjóðir náttúrlega margfalt meiri skapa ákveðna vild. Það er alveg klárt.

Ég held að ég geti fullyrt að þetta hefur verið gagnrýnt harkalega og þróunin er frá þessu. Ef við horfum t.d. á okkar stöðu þá getum við jafnvel séð að atvinnugreinar á Íslandi gætu séð sér hag í því að komast inn í gegnum þróunarsamvinnu eins og í sambandi við jarðhitann en eitt af því sem skiptir mjög miklu máli fyrir ríki sem eru til dæmis nálægt Sigdalnum mikla er að ná að vinna upp þekkingu til að geta nýtt þá orku sem þar er. Við höfum farið þá leið að við höfum veitt töluvert mikið fjármagn til þess. Ég held ég fari með rétt mál þegar ég segi að hugsanlega sé skortur á sérfræðimenntuðu fólki en menn hafa freistað þess bæði að byggja upp þekkingu með dálítið sniðugum hætti í þessum löndum og að ráða heimamenn. Ég veit ekki hvort það er vegna þess að það hefur einfaldlega ekki verið völ á öðrum. Þetta hefur tekist nokkuð vel og það er að verða til þekking þar.

Þeim manni sem núna stýrir ÞSSÍ (Forseti hringir.) hefur tekist að ná frá öðrum þróunarstofnunum mjög háum upphæðum vegna þess að Íslendingar (Forseti hringir.) þykja góðir pappírar í þessari grein.