145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Flóttamannastraumurinn frá stríðsátakasvæðunum sunnar á hnettinum til Evrópu er stærsta mannúðarmálið sem þjóðir í okkar heimshluta hafa staðið frammi fyrir í áratugi og Íslendingar virðast ætla að falla á prófinu. Það segir margt um siðferðisstyrk þjóðar hvort og hvernig landsmenn taka á móti þeim sem leitar aðstoðar í nauðum. Núna eru tugir milljóna manna á vergangi um heiminn á flótta undan stríðshörmungum, vegalaust fólk með börn í fangi í sárri neyð. Bæði Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið hafa ákallað þjóðir heims um að taka vel á móti þessu fólki og til eru þjóðir sem hafa brugðist vel við því ákalli og þar með tendrað siðferðilega leiðarstjörnu. En því miður hefur engin leiðarstjarna verið tendruð í málinu hjá ríkisstjórn Íslands sem dregur lappirnar dögum og vikum saman. Hæstv. félagsmálaráðherra talar eins og allt velti þetta nú á íslenskum almenningi, sem vel að merkja hefur lýst sig meira en reiðubúinn til að opna faðminn og veita margvíslega aðstoð; húsnæði, búnað, fatnað, vináttu, lestrarkennslu og hvaðeina sem fólk hefur boðið fram á síðustu dögum og vikum. En það er bara ekki almenningur sem málið strandar á heldur strandar það í ríkisstjórninni sem því miður virðist líta á flóttamenn sem vandamál og þróunarhjálp sem peningaeyðslu, eins og dæmin sanna og alræmt er orðið. Það er ömurlegt þegar efnahagur landsins fer ört batnandi og ríkið hefur 15 milljarða kr. til ráðstöfunar, eins og á þessu ári, að við skulum enn vera langt frá viðmiði Sameinuðu þjóðanna um framlög til þróunarmála því að, herra forseti, hér í niðamyrkri hægri stjórnarinnar hefur því miður enginn leiðarstjarna verið tendruð, hvorki í þessu máli né öðrum, sem snerta mannúð, samhjálp og velferð.


Efnisorð er vísa í ræðuna