145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða stöðu efnahagsmála, framtíðarstefnu, vaxtahækkanir og verðtryggingu. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson ræddi í gær um vaxtaákvarðanir Seðlabankans og afleiðingar vaxtahækkana fyrir heimilin og atvinnulífið og benti réttilega á hættuna af vaxtamunarviðskiptum og þau neikvæðu áhrif sem innflæði peninga af slíkum viðskiptum hefur.

Virðulegi forseti. Við núverandi aðstæður, í kjölfar kjarasamninga, hefur hækkun vaxta neikvæð áhrif á atvinnulífið, starfsemi og rekstur fyrirtækja og þá sérstaklega minni og meðalstórra. Þannig eiga þau ekki annars úrkosta en að velta hærri fjármagnskostnaði út í verðlagið og í stað þess sem upphaflega er ætlunin, að draga úr heildareftirspurn og slá á verðbólgu, verða áhrifin þveröfug. Reyndar hafa margir hagfræðingar bent á það að alls er óvíst að vaxtahækkunin dragi úr heildareftirspurn, m.a. vegna verðtryggingar húsnæðislána, heldur gæti blásið í illskeytta kostnaðarverðbólgu þegar fyrirtækin reyna að hagræða gegn launahækkunum umfram framleiðslustig. Þá verður sú viðleitni erfiðari með hærri fjármögnunarkostnaði ofan í kaupið.

Jafnvægi og stöðugleiki er auðvitað bara hugtak um eitthvert mögulegt æskilegt ástand án þess að það sé nokkurn tímann raunverulegt en segja má að gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu og lægra olíuverð hafi bjargað málum um sinn.

Ég ræddi hér í gær fjárlögin og mikilvægi þess að nýta uppsveifluna til að greiða niður skuldir ríkissjóðs en það er ekki síður mikilvægt að verja heimilin gegn viðvarandi hækkunum verðtryggðra húsnæðislána. Það gerist ekki nema með því að afnema verðtrygginguna eins og hæstv. ríkisstjórn lagði upp með.

Afnám verðtryggingar og skýr efnahagsstefna til lengri tíma litið og inn í framtíðina með áherslu á samspil ríkisfjármála og peningamálastefnu hljóta að verða næstu skref hæstv. ríkisstjórnar á sviði efnahagsmála.


Efnisorð er vísa í ræðuna