145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

kjör aldraðra og öryrkja.

[15:58]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagði í andsvari við mig á dögunum að hann teldi að tryggja þyrfti að réttir hvatar væru í almannatryggingakerfinu til að fólk sæi ávinning af því að fara út á vinnumarkaðinn og talaði eins og allir hefðu val um bætur eða atvinnu. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lýsti mjög skýrt þeirri skoðun sinni að bætur almannatrygginga ættu að vera lægri en lágmarkslaunin.

Látum það vera. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki ályktað, svo að ég viti, í þá veru að bætur almannatrygginga ættu ekki að vera lægri en lágmarkslaun. Það hefur Framsóknarflokkurinn hins vegar gert og því er vert að hlusta grannt eftir því sem framsóknarmenn hafa að segja um málið.

Hæstv. félagsmálaráðherra sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á mánudaginn síðasta að hækkunin sem boðuð er í fjárlagafrumvarpinu sé í samræmi við stefnu beggja stjórnarflokkanna. Er víst að þeir framsóknarmenn sem stóðu að samþykkt flokksþings Framsóknar um lífeyri og lágmarkslaun séu þessu sammála? Ég leyfi mér að efast um að þeir telji að það sé í lagi að lífeyrir verði lægri en lágmarkslaun í átta mánuði á þessu ári og í átta mánuði á því næsta líka og að það sé það sem þeir samþykktu, að lífeyrir almannatrygginga tæki breytingum í samræmi við lágmarkslaun.

Hæstv. félagsmálaráðherra sagði hér áðan að 1. janúar 2016 mundu bæturnar ná lágmarkslaunum, en þær gera það aðeins í fjóra mánuði vegna þess að 1. maí hækka launataxtarnir aftur á árinu 2016.

Stjórnarliðar tala núna um hækkun bóta almannatrygginga á milli ára sem eins konar góðverk og sumir segja að þeir séu bundnir af lagabókstaf og því sé ekki hægt að gera betur. Lagabókstafurinn hélt ekki aftur af ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna árið 2011 í því að gera betur þegar bætur almannatrygginga hækkuðu um leið og laun í kjölfar kjarasamninga og í samræmi við lágmarkslaun.