145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:29]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður gerir sér grein fyrir því að menn hafa gert úttektir á því hvaða fyrirkomulag hentar best þróunarsamvinnu. Það er ein niðurstaða og hún er þessi: Fyrirkomulagið skiptir ekki höfuðmáli. Það sem skiptir langmestu máli um árangur er styrkur hinnar pólitísku forustu sem er fyrir málaflokknum. Það skiptir máli. Það er til dæmis ein af niðurstöðum skýrslu sem okkur barst í utanríkismálanefnd í fyrra en er alveg ljóst að hæstv. utanríkisráðherra hefur aldrei augum barið eða sennilega nokkur í hans góða ráðuneyti.

Í þeirri skýrslu kemur til dæmis fram að Ísland er í langstærsta hópnum þ.e. þeim hópi sem hefur það fyrirkomulag þar sem er sérstök stofnun sem sinnir framkvæmdinni og síðan eru það ráðuneytin, utanríkisráðuneytið sem sinnir því að sjálfsögðu að útfæra stefnuna innan þeirra heimilda sem löggjafinn veitir og stefnumótunar af hans hálfu og hefur síðan eftirlit með því hvernig framkvæmdin tekst til. Svona er þetta hjá langflestum löndum innan DAC-hópsins svokallaða sem tilheyrir OECD.

Það er mjög fróðlegt að horfa á hvernig menn hafa verið að breyta þessu. Við sjáum til dæmis Ítalíu. Þar var gerð mjög ítarleg úttekt á því hvernig réttast væri að halda á málum og niðurstaðan varð sú að Ítalir gerbreyttu fyrirkomulaginu fyrir einu og hálfu ári og tóku upp það fyrirkomulag sem tíðkast á Íslandi vegna þess að þeir töldu það farsælast. Aðrar þjóðir hafa haft það öðruvísi, til dæmis hafa Bretar, sem þykja gera þetta hvað best, sérstakt ráðuneyti. En mig langar til að spyrja hv. þingmann: Finnst honum ekki að þetta séu frekar rök með því að viðhalda núverandi kerfi a.m.k. þangað til DAC-hópurinn er búinn að framkvæma sína jafningjarýni?