145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég lýsi yfir miklum áhyggjum yfir þeim vinnubrögðum sem eru hérna á þingi. Ég fékk sams konar boð og hæstv. utanríkisráðherra um að koma í kjördæmið og það boð lá fyrir með margra daga fyrirvara og hæstv. ráðherra vissi mætavel hvenær hann átti þá að vera mættur í það boð sem okkur var boðið, þingmönnum kjördæmisins. Ég afþakkaði boðið af því að ég var enn þá í þeirri umræðu sem hér fer fram og taldi eðlilega að utanríkisráðherra væri hér líka. Mér þykir mjög undarlegt að síðan tilkynni hann það bara sisvona í einhverri andarteppu að hann verði að rjúka af stað og það sé varaformanni þingflokks Samfylkingarinnar að kenna ef hann geti ekki mætt í þetta boð. Það er auðvitað með ólíkindum að bjóða okkur þingmönnum upp á svona vinnubrögð (Forseti hringir.) og ég gef ekki mikið fyrir að Þróunarsamvinnustofnun fari undir ráðuneyti þar sem hæstv. ráðherra hagar sér svona.