145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

beiting Dyflinnarreglugerðarinnar.

[10:45]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Öll sú atburðarás sem er í Evrópu, þessir fordæmalausu atburðir sem nú eru að verða, þar sem við erum ekki að tala um neinn venjulegan flóttamannastraum heldur hreina þjóðflutninga milli svæða, gerir það að verkum að mjög reynir á allt regluverk. Það er hins vegar þannig að Schengen-samstarfið hefur skipt þau ríki sem eru aðilar að því gríðarlega miklu máli og menn eru að reyna að leita leiða til að styrkja þessi ytri landamæri Schengen og þá skiptir skráning nefnilega máli. Ef við ætlum að halda í það regluverk þá verðum við að styrkja það þannig að það virki. Þegar ég segi að mér finnist ekki koma til greina á þessu stigi að fara að ræða Dyflinnarreglugerðina að þessu leyti, þá er það vegna þess að um leið og við förum að gera það erum við faktískt að segja að það kerfi allt saman virki bara ekki, og þá erum við kannski komin að annarri grundvallarspurningu sem er auðvitað sú hvert framhaldið verður á Schengen. Meðan menn eru að reyna að ná tökum á þessu ástandi og eru að ræða það þá finnst mér ekki tímabært fyrir okkur Íslendinga að stíga slík skref á þessu stigi, það finnst mér ekki.