145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

þjóðarátak um læsi.

[11:26]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við ræðum hér á Alþingi mikilvæg mál á borð við læsi barna. Mér finnst rétt að við veltum aðeins fyrir okkur forsendunum. Það er hlutur sem við þurfum að athuga þegar við ræðum PISA-könnunina, sem er sá mælikvarði sem flestir hér vitna til í umræðu um menntamál. Það er staðreynd að Vesturlönd koma verr út úr þeirri könnun en annars konar samfélög, t.d. samfélög Austur-Asíu sem byggja á allt öðrum gildum en hin vestrænu samfélög, þannig að við ættum að velta fyrir okkur nákvæmlega hér hvernig mælikvarði PISA-könnunin er. Hvað er hún nákvæmlega að mæla? Ríma þeir mælikvarðar við þau vestrænu lýðræðissamfélög sem við höfum verið að byggja upp í ljósi þess að það eru samfélög Austur-Asíu sem koma langbest út úr þessum mælikvörðum?

Nú eru tvær mínútur bara allt of stuttur tími til að ræða þessi mál. Þörf er á miklu dýpri umræðu um menntamál en þetta er eitt af því sem við þurfum að skoða. Við þurfum líka að velta því fyrir okkur að átaksverkefni eru átaksverkefni. Ein af mikilvægustu breytunum þegar til dæmis PISA-niðurstöður eru greindar, og unnið hefur verið talsvert í því á Norðurlöndum — ég man sérstaklega eftir danskri rannsókn sem sýnir að þeir sem koma best út úr PISA eru ekki endilega þeir sem eru í tilteknum skólum heldur þeir sem búa við ákveðnar heimilisaðstæður, þ.e. heimilið, aðstæður foreldra virðast hafa ráðandi áhrif. Þá ættum við aðeins að skoða líka, því að þó að hluti af þessu átaksverkefni sé ráðgjöf við foreldra og annað slíkt, hvað er það besta sem við getum gert til að stuðla að auknum lestri inni á heimilunum sem hafa svona mikil áhrif. Ég verð að segja að þó að átaksverkefni geti verið góðra gjalda verð þykir mér það skjóta skökku við að þegar við erum að lýsa yfir áhyggjum af læsi hækki sama ríkisstjórn og fer í átaksverkefnið virðisaukaskatt á bækur, geri bókaútgáfum erfiðara fyrir að stuðla að (Forseti hringir.) öflugri bókaútgáfu, ekki bara fyrir fullorðna heldur líka fyrir börn og unglinga. Ég, sem fer mjög reglulega í bókabúðir og kynni mér nýjustu útgáfu, held að full ástæða sé til að hafa áhyggjur af því. Börn þurfa að hafa gaman af því að lesa og þá þurfa þau að fá eitthvað skemmtilegt að lesa, eitthvað nýtt, (Forseti hringir.) eitthvað sem endurspeglar þeirra samfélag. Mér finnst að við ættum að vera að ræða það hér, frú forseti, þegar við ræðum læsi barna og unglinga.