145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

þjóðarátak um læsi.

[11:38]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hans áðan og hv. þingmönnum fyrir þátttökuna í umræðunni sem hefur kannski fyrst og fremst skilið eftir fleiri spurningar en hún hefur svarað. Ég held að full ástæða sé til að halda umræðunni áfram.

Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra sagði að læsi væri ávísun á stéttleysi, þ.e. að í samfélagi þar sem allir væru læsir væru meiri líkur á stéttleysi — hann orðaði það einhvern veginn svona. Ég vil því spyrja vegna þess að þetta er ákveðið skólapólitískt stef sem heyrist oft: Telur ráðherrann að það sé fyrst og fremst viðfangsefni skólans að leiðrétta stéttaskiptingu og leiðrétta mun á kjörum? Og ef markmiðið númer eitt er að draga úr ójöfnuði í samfélaginu þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra um það hvaða skilning hann hefur á því hvar misréttið í samfélaginu liggur fyrst og fremst og hvaða leiðir eru bestar til að leiðrétta það misrétti? Hvort það er kannski með ýmsum öðrum aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur unnið í þveröfuga átt og ítrekað í þá átt að auka hér misrétti, að auka færi þeirra ríku til að styrkja stöðu sína og halda þeim efnaminni niðri.

Virðulegi forseti. Ætlar hæstv. ráðherra að leiðrétta stéttaskiptingu og misrétti á Íslandi með átaksverkefni um læsi? Ég held að mikilvægt sé að hæstv. ráðherra ræði þetta í lokasvari sínu en ekki síður hvernig hann sér fyrir sér þá staðreynd að staða íslenskrar tungu verður sífellt veikari og þess sér ekki stað að (Forseti hringir.) núverandi ríkisstjórn sé ótilkvödd, ótilneydd, liggur mér við að segja, að styrkja stöðu tungunnar.