145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

12. mál
[16:48]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu. Flutningsmenn tillögunnar ásamt mér eru hv. þm. Birgitta Jónsdóttir og Ásta Guðrún Helgadóttir.

Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela forsætisnefnd Alþingis að láta undirbúa lagafrumvarp um sérstaka stofnun á vegum Alþingis sem hafi sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu. Við undirbúning frumvarpsins verði m.a. litið til þess að stofnunin fái þau verkefni að:

a. hefja athugun að eigin frumkvæði,

b. taka við kærum einstaklinga sem telja lögreglu hafa brotið á réttindum sínum,

c. rannsaka meint brot lögreglumanna í starfi,

d. rannsaka tilkynningar innan úr lögregluliðum um einelti og kynferðislega áreitni,

e. rannsaka upplýsingar frá nafnlausum afhjúpendum innan lögreglu eða stjórnsýslu.

Þá verði við undirbúning frumvarpsins metið hvort stofnunin geti einnig farið með ákæruvald í slíkum eftirlitsmálum. Í frumvarpinu verði kveðið sérstaklega á um sjálfstæði stofnunarinnar.

Forsætisnefnd leggi frumvarpið fram til kynningar ásamt kostnaðargreiningu eigi síðar en á vorþingi 2017.“

Þessi tillaga var einnig lögð fram á síðasta þingi og þá hélt ég ræðu sem er efnislega og að miklu leyti orðafarslega sú sama og ég flyt hér í dag, með sérstöku leyfi forseta. Í tillögunni er gert ráð fyrir að frumvarpið kveði á um fjölþætt hlutverk stofnunarinnar. Í fyrsta lagi almennt eftirlit með starfsemi lögreglunnar. Í því felst til dæmis eftirlit með því að verklagsreglur séu til og aðgengilegar fyrir lögreglumenn, eftirlit með beitingu valdheimilda lögreglunnar, framkvæmd húsleitar, símhlustun, handtökum, vistun handtekinna manna og eftirlit með þjónustu lögreglunnar við almenning.

Í öðru lagi könnun mála vegna kvartana sem koma frá almenningi, félagasamtökum, einstaklingum eða lögaðilum. Oft koma upp mál sem tengjast framkvæmd lögreglustarfa sem benda til þess að eitthvað hefði mátt betur fara án þess þó að beinlínis liggi fyrir grunur um refsivert brot af hálfu lögreglu. Stofnunin gæti sinnt kvörtunum af því tagi og haft valdheimildir til að kalla eftir skýringum og gögnum frá lögregluembættum.

Í þriðja lagi rannsókn minni háttar brota lögreglumanna. Hér er átt við bæði meint brot lögreglumanna gegn starfsskyldum sínum og meint brot þeirra gegn almenningi og einstaklingum.

Í fjórða lagi rannsóknir á meiri háttar brotum lögreglumanna hvort sem er í starfi eða utan þess. Hér er átt við þau brot sem fangelsisrefsing eða verulegar fjársektir geta legið við. Sérstök athygli er vakin á því að ólíkt rannsóknum minni háttar brota, sem aðeins eiga að ná til meintra brota meðan á skyldustörfum stendur, er mælt með því að stofnunin rannsaki einnig meiri háttar brot sem grunur leikur á um að lögreglumaður hafi framið utan vinnutíma. Með því væri komið í veg fyrir að lögreglumenn stæðu frammi fyrir því að rannsaka háttsemi stéttarbræðra sinna og stéttarsystra sem gæti valdið því að þeim yrði gerð veruleg fjársekt eða fangelsisrefsing. Einnig væri með því tryggt að slíkar rannsóknir hefðu yfirbragð trúverðugleika umfram það fyrirkomulag sem nú er við lýði.

Í fimmta og síðasta lagi þarf að skoða hvort unnt væri að veita stofnuninni ákæruvald í málum sem undir hana heyra. Það kallar þó á sérstaka skoðun stjórnskipunarlaga með tilliti til þrígreiningar ríkisvaldsins, en markmiðið er að gera ákæruvald í málefnum lögreglu síður tengt lögreglunni.

Virðulegi forseti. Það eru ríkar ástæður fyrir því að halda úti sjálfstæðu eftirliti með lögreglunni. Á hverju ári kemur upp gagnrýni á lögreglu og framferði hennar án þess að beinlínis sé um að ræða brot á hegningarlögum eða eitthvað því um líkt. Sem dæmi má nefna hvernig lögreglan leitar á fólki og undir hvaða kringumstæðum, til dæmis hvort það þyki eðlilegt að leita beinlínis á öllum gestum tiltekinna hátíða eins og Extreme Chill hátíðinni sem var haldin í ár. Á þeirri hátíð að sögn, eftir því sem maður heyrir úti í bæ, var það vegna þess að nýtt skipulag væri í gangi hjá lögreglunni og hún vildi svolítið sýna hver réði á þeim stað. Ég veit ekki hvort það er satt, virðulegur forseti, en það er alla vega það sem maður heyrir úr nokkrum áttum. Þetta leiðir af sér að lögreglan beitir kannski aðferðum sem eru umfram það sem er nauðsynlegt. Ég trúi því staðfastlega að fólk vilji almennt ekki vera undir stöðugu eftirliti og stöðugu áreiti frá laganna vörðum nema það sé nauðsynlegt.

Að því sögðu er líka mikilvægt að halda því til haga að þessi tillaga er ekki lögð fram eingöngu til þess að almenningur sjálfur njóti góðs af, heldur einnig lögreglan sjálf. Það er mikilvægt fyrir lögregluna sjálfa og margir hv. lögreglumenn og yfirlögregluþjónar og lögreglustjórar hafa beinlínis kallað eftir því, óaðspurðir, að komið verði á fót sjálfstæðu eftirliti með lögreglu til þess að línurnar séu skýrar, til þess að verklagið sé skýrt, til þess að þegar til verður hefð fyrir því að gera eitthvað sem er ekki í fullu samræmi við laganna bókstaf þá sé það lagað með einhverjum hætti.

Meðan lögreglan stólar á slíkt eftirlit frá fólki sem hún vinnur einnig mikið með gerist það óhjákvæmilega að til verður ákveðin menning, einhvers konar félagamenning. Það er ekki gott fyrir þá lögreglumenn sem vilja standa hvað best að starfinu og vilja að lögreglan njóti sem mests trausts frá öllum stéttum þjóðfélagsins, þar á meðal þeirra sem eru oft með hið svokallaða og víðfræga vesen. Þeir lögreglumenn eiga erfitt með að tryggja að þeir geti starfað sem best í þágu réttinda borgaranna ef það myndast einhvers konar menning sem gerir það að verkum að lögreglan hefur tilhneigingu til þess að haga sér einhvern veginn öðruvísi en fólk ætlast til.

Gott dæmi um þetta er þegar menn eru handteknir, en þeim er ekki sagt hvers vegna. Þegar lögreglumenn eru stundum spurðir að þessu þá neita þeir að svara og láta eins og slíkar spurningar eigi heima í einhverjum bandarískum bíómyndum þegar reyndin er sú að það er réttur hvers og eins að fá að vita hvers vegna hann er handtekinn og hver réttarstaða hans er, hvaða réttindi hann hefur. Það kemur ítrekað fram að oft er þetta ekki gert og þykir ekkert tiltökumál af einhverjum ástæðum. Þetta er sennilega einhvers konar menningarlegt atriði sem hefur fengið að þróast í áranna rás. Menn hlýða á þessa réttindarunu í bandarískum bíómyndum og hugsa með sér að þetta eigi bara heima í bíómyndum en ekki í raunveruleikanum.

Annað er hvernig lögreglumenn hóta því oft að handtaka menn og fara með þá niður á stöð ef ekki fæst leyfi til þess að leita á fólki. Þá virkar það þannig að einhver einstaklingur sem er kannski eða kannski ekki með hið víðfræga vesen eða jafnvel ekki neitt meint vesen heldur er bara á einhverjum stað á ákveðnum tíma og lögreglumaður vill fá að leita á viðkomandi. Þá gerist það trekk í trekk, maður heyrir endalausar svona sögur, virðulegur forseti, að lögreglumaður vill fá að leita á einstaklingum. Sá segir nei eða spyr hvers vegna eða eitthvað því um líkt og þá hótar lögreglumaðurinn því að fara með viðkomandi burt úr hverju svo sem er í gangi, skemmtun eða hvaðeina, niður á lögreglustöð og húka þar og bíða þar eftir dómsúrskurði frá dómara. Það eru bara tvær lögmætar kringumstæður þar sem lögreglumaður má leita á almennum borgara, það er annars vegar með dómsúrskurði og hins vegar með samþykki þess sem leitað er á. Hins vegar má lögreglan fara með viðkomandi niður á stöð, má handtaka hann og hefja rannsókn við grun og síðan er beðið þar eftir dómsúrskurði. Þá er viðhorfið jafnan þannig að vegna þess að viðkomandi hafnaði leit þá hljóti hann að hafa eitthvað að fela og þar af leiðandi fæst auðvitað dómsúrskurður. Þetta er sambærilegur vandi og á við um símhleranir og heimildir til hlerunar. Þær eru eiginlega samþykktar sjálfkrafa ef mönnum svo mikið sem dettur í hug að spyrja um heimild.

Þetta er eitt af þeim vandamálum sem er ekki auðvelt að taka á með öðrum leiðum en þeirri hafa einhvers konar sjálfstætt eftirlit þar sem eftirlitsaðilinn er ekki tengdur þeim sem eftirlit er haft með. Þá ítreka ég aftur að lögreglumenn sem vilja hafa þetta í lagi, ég tala nú ekki um lögreglustjóra sem vilja hafa þetta í lagi eins og hv. fyrrverandi lögreglustjóri Stefán Eiríksson, eða hv. fyrrverandi yfirlögregluþjónn Geir Jón Þórisson, sem studdi einmitt þetta mál í fyrra, telja að sjálfstætt eftirlit með lögreglu þjóni hagsmunum alls samfélagsins, líka lögreglunnar sjálfrar. Ég held að ef við hefðum sjálfstætt eftirlit væru borgararnir í fyrsta lagi mun samvinnuþýðari og í öðru lagi væru þeir ekki jafn óttaslegnir við lögregluna. Það gerist oft að þegar lögreglan spyr einhvern um nafn þá neitar hann að svara án þess að hafa eitthvað að fela, bara vegna þess að það ríkir tortryggni gagnvart lögreglunni. Þótt lögreglan njóti mikils trausts almennt í samfélaginu þá er mjög stór hópur í samfélaginu sem treystir ekki lögreglunni, varla til að hringja í hana ef eitthvað bjátar á. Það eru dæmi um það. Það eru dæmi um að einhver taki of stóran skammt af vímuefnum og þurfi sjúkraaðstoð en einhver sem er á svæðinu vill ekki hringja í lögregluna af ótta við hana, yfirleitt vegna fyrri samskipta. Enginn vill hafa þetta svona, allra síst lögreglan, tel ég. Það eru rök fyrir því að samþykkja þetta góða mál og koma á fót þessu eftirliti.

Að öðru leyti vísa ég í greinargerð með tillögunni og óska eftir því að tillagan fari til meðferðar hjá hv. allsherjar- og menntamálanefndar.