145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

upplýsingalög.

19. mál
[17:42]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég hef stundum litið á það sem hlutverk mitt á langri samferð minni og hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að leggja honum til efnivið til að brýna sinn gogg á og reyna í honum hin rökfræðilegu þolrif. Hann er alltaf að batna, ég verð að segja það honum til hróss.

Til að taka af allan vafa vil ég lýsa því yfir að ég styð þetta þingmál algjörlega, alla leið. Hins vegar fyrirgefst mér væntanlega, virðulegi forseti, að hafa verið í nokkru uppnámi í ræðum mínum áðan því að það er svo sjaldan sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins stíga fram og hafa beinlínis frumkvæði að því að reisa gunnfána í baráttu gegn því sem er bókstaflega í munni þeirra kallað spilling, og ég fagna því.

Hv. þingmaður lýsti ákveðnum aðstæðum sem geta skapast í umhverfi þar sem upplýsingar liggja ekki á lausu og geta leitt til þess sem ekki er hægt að kalla annað en spillingu. Hv. þingmaður beitti því orði væntanlega vegna þess að það eru svo fáir í þessum sal að hlusta á hann og enginn sem kemur og slær á putta hans. Í fyrri ræðum sínum hefur hann kallað það tregðulögmál.

Það breytir engu um það að hér er um að ræða mikilvægt skref til að tryggja að allir geti notið jafnræðis og til að ýta til baka því tregðulögmáli sem hefur oft leitt til þess að nýir aðilar á markaði, sem hafa freistað þess að koma varningi sínum og þjónustu á framfæri gagnvart ríkinu, sitji oft eftir með skarðan hlut. Hér er um að ræða ákaflega háar upphæðir, eins og hv. þingmaður reifaði í ræðu sinni, ríkið og hið opinbera og þær stofnanir sem ríkið á meiri hluta í, sem hér um ræðir, eru gríðarlega stór partur af veltunni á þessum markaði. Því segi ég það að þetta er mikilvægt og jákvætt og stuðlar vitaskuld að því að skapa heilbrigðari viðskiptahætti og betra viðskiptaumhverfi. Og ekki skal ég af því draga að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur verið einna fremstur í sínum flokki til að tala fyrir vinnubrögðum sem þjóna þeim tilgangi, en hitt er svo það að mér finnst Sjálfstæðisflokkurinn almennt allt of oft og allt of lengi hafa dregið lappirnar gagnvart því.

Hér var lögð fram gríðarlega þykk og viðamikil skýrsla í kjölfar bankahrunsins, sem búin var til af rannsóknarnefnd Alþingis, þar sem allar meginniðurstöður hnigu að því að menn gerðu reka að því að tryggja betur gagnsæi og upplýsingaflæði og opna fyrir upplýsingar gagnvart almenningi og mér hefur oft fundist vanta á það að Sjálfstæðisflokkurinn tæki undir það.

Af því að ég er nú í stjórnmálahreyfingu sem aðhyllist umhverfisvernd og hef barist árum saman, allt frá því að ég var umhverfisráðherra frá 1993–1995, fyrir því að í lög væru slegnar ákveðnar skuldbindingar sem tryggðu að almenningur ætti frjálsan aðgang að öllum upplýsingum sem umhverfismál varðaði, ekki síst þeim sem lúta að umhverfismati, þá hefur mér oft fundist Sjálfstæðisflokkurinn heldur leggjast í hina áttina. Hér hins vegar, að vísu á gjörólíku sviði, eru þrír hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins að taka rösklega á árinni að því er varðar upplýsingaopnun og gagnsæi og ég fagna því.

Ég segi bara: Virðulegur forseti. Guð láti gott á vita. Ég vona að þessi litli partur þingflokksins nái með afli sínu og áræði að draga allan þingflokkinn með sér í þessu máli og ekki aðeins á sviði viðskipta heldur alls staðar. Heilbrigt samfélag getur aldrei orðið til nema við tryggjum sem ríkast gagnsæi.