145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

móttaka flóttamanna.

[15:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin tilkynnti á laugardaginn um aðgerðir vegna móttöku flóttamanna og ég vil byrja á að fagna þeim aðgerðum og lýsa sérstakri ánægju með að í svo viðkvæmum málaflokki og mikilvægum sem málefni flóttamanna eru skuli virðast vera að myndast mjög víðtæk pólitísk samstaða um nauðsynlegar aðgerðir. Við erum mörg hér í stjórnarandstöðunni sem höfum lagt fram þingsályktunartillögu um móttöku flóttamanna á næstu þremur árum. Ríkisstjórnin spilar nú út hugmyndum um úrlausn á þessu ári og því næsta og ég fagna því. Ég legg þó áherslu á að hér er ekki um átaksverkefni að ræða sem leysist á tveimur árum, heldur mun viðvarandi úrlausnar þurfa við um ókomin ár til að taka á þessum mikla vanda.

Eitt atriði vil ég sérstaklega nefna. Í viðtölum um helgina við hv. þingmenn Unni Brá Konráðsdóttur og Óttar Proppé, sem kynntu sér aðstæður í flóttamannabúðum fyrir botni Miðjarðarhafs, var áberandi sú upplifun þeirra að vonleysið væri alltumlykjandi og öllu ráðandi í þessum flóttamannabúðum því að fólk upplifði einfaldlega eftir margra ára bið að engin leið væri að fá úrlausn og að röðin kæmi aldrei að því, þess vegna væri fólk að kaupa sér far með manndrápsfleytum yfir Miðjarðarhafið og leggja líf sitt í hættu.

Er hæstv. forsætisráðherra tilbúinn, og ríkisstjórnin, að við hugleiðum í sameiningu með hvaða hætti við getum sérstaklega brugðist við þessum vanda? Getum við veitt þessu fólki áritanir og auðveldað því að koma hingað og fá úrlausn sinna mála í ríkari mæli? Með hvaða hætti getum við reynt að greiða fólki leið? Auðvitað er ódýrara að kaupa sér flugfar til Íslands en að borga þær gríðarlegu fúlgur sem fólk er að borga glæpamönnum (Forseti hringir.) til að fá far yfir Miðjarðarhafið. Hvað getum við gert til að auðvelda fólki úrlausn að þessu leyti?