145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

tekjustofnar sveitarfélaga.

[14:17]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Til viðbótar lögbundnum tekjustofnum sveitarfélaga tel ég að tími sé kominn til að finna leiðir til að skipta arði af auðlindum þjóðarinnar milli sveitarstjórnarstigsins og ríkissjóðs. Samfylkingin lagði til á síðasta þingi sem hluta af bættri byggðastefnu að sveitarfélög fengju hluta af veiðigjaldinu. Lagabreytingar hafa ásamt tækniframförum leitt til mikillar hagræðingar í sjávarútvegi með tilheyrandi fækkun starfa og röskun á búsetuforsendum víða um land. Þjóðfélagið í heild hagnast á hagkvæmum sjávarútvegi en sveitarfélögin greiða fyrir hagræðinguna með fækkun starfa og fækkun íbúa í kjölfarið. Kvótakerfið með framsalsrétti hefur þannig í för með sér samfélagslegan kostnað sem fallið hefur á sveitarfélögin. Hagræðingin leiðir til langtímaávinnings fyrir þjóðina í heild en stærstur hluti ávinningsins hefur runnið til útgerða og hin síðari ár að einhverju leyti til ríkisins í formi veiðigjalds.

Kostnaður vegna ferðamanna sem sækja okkur heim til að njóta náttúrunnar leggst á mörg sveitarfélög sem fá ekki að sama skapi tekjur af ferðamönnunum. Dæmi um þetta eru sveitarfélög sem eru vinsæl til norðurljósaskoðunar, rútur flykkjast í tugatali í sama sveitarfélagið, farþegar nýta sér almenningssalerni áður en þeir fara til baka og skilja eftir sig spor sem sveitarfélögin bera kostnað af.

Í stað þess að kokka stöðugt upp tillögur að nýjum gjöldum með flóknum innheimtuleiðum væri skynsamlegra og í anda stefnu núverandi stjórnvalda um einfaldara skattkerfi að ferðaþjónustan færi í almennt þrep virðisaukaskattskerfisins og sveitarfélögin fengju að njóta hluta teknanna. Að sama skapi eiga sveitarfélögin að njóta þeirrar auðlindarentu sem orkufyrirtækin kunna að skila í framtíðinni.

Lagafrumvarp sem ákvarðar almenna meðferð á skiptingu arðs af öllum náttúruauðlindum okkar er orðið aðkallandi.