145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

tekjustofnar sveitarfélaga.

[14:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mikil verkefnatilfærsla hefur verið frá ríki til sveitarfélaga í gegnum tíðina og oft hefur verið rætt um að ekki hafi fylgt nægt fjármagn frá ríkinu til þeirra verkefna. Það er auðvitað alltaf umdeilanlegt en ég held samt að það sé mikið til í því. Það hefur verið raunin að þegar þessi verkefni, eins og málefni fatlaðra og fyrir löngu síðan grunnskólinn, hafa færst til sveitarfélaganna þá hefur þjónustan verið aukin. Þegar verkefnin eru komin í nærsamfélagið verður það yfirleitt til þess að þjónustan eykst sem kallar á meiri útgjöld.

Ég tel alveg eðlilegt að tekist sé á um tekjur milli ríkis og sveitarfélaga. Í raun og veru er þetta lifandi plagg sem þarf að vera í stöðugri endurskoðun. Hér hefur verið minnst á mikla fjölgun ferðamanna sem hefur vissulega áhrif á sveitarfélögin en þau hafa ekki eins miklar tekjur af þeim og ríkið. Mér finnst eðlilegt að við skoðum hvort sveitarfélög eigi að fá einhvern hlut í þeim mikla tekjuauka sem fylgir ferðamannastraumi til landsins.

Mér finnst líka alveg koma til greina að skoða að sveitarfélögin fái einhvern hluta af veiðigjöldum eða fjármagnstekjuskatti en þá í tilgreind, afmörkuð verkefni til stuðnings fjölbreyttari atvinnusköpun og styrkingu innviða í ferðaþjónustu. Mér finnst mjög mikilvægt að horft sé til þess að styrkja Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til þess að rísa undir þeim verkefnum og að sveitarfélögin geti boðið sambærilega þjónustu hvar sem þau eru á landinu.