145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:42]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nú höldum við áfram að ræða þetta mál sem við höfum gert töluvert af og kannski ekki að ósekju af því að skilvirkni og árangur eru þau hugtök sem hafa verið notuð sem rök fyrir því að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun og flytja hana inn í ráðuneytið. Eins og ég hef áður sagt er skilvirkni kannski ekki sterkasta hlið ráðuneyta. Þar er ákvarðanatakan í töluvert mikilli fjarlægð frá þeim vanda sem þarf að leysa. Það gerist stundum að verkefnin velkjast á milli undirmanna í stofnunum og ráðuneytum og enda svo kannski uppi á borði hjá ráðherra þegar vandinn sem þar er verið að fást við, þ.e. eins og í svona starfsemi, er horfinn eða hefur jafnvel margfaldast að umfangi. Það þarf að leysa mál með skjótum hætti í þróunarsamvinnu. Svo má ekki gleyma því að það eru haldnir símafundir með umdæmisskrifstofum, nánast daglegt brauð hjá Þróunarsamvinnustofnun þar sem fólk fer yfir málin og leysir þau.

Eins og hér hefur áður verið vikið að getur Þróunarsamvinnustofnun lagt fram úttektir sem sýna hvernig verkefnum vindur fram og hvernig skattpeningar eru nýttir, en það sama á ekki við um ráðuneytin, a.m.k. ekki eins og hér var rakið í gær með meðal annars skóla Sameinuðu þjóðanna eða friðargæsluna.

Með því að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun er verið að kalla eftir minni skilvirkni, minni árangri að mínu mati og meira ógagnsæi. Þegar við ræðum þessi mál átta ég mig ekki á því að ekki skuli vera spurt um árangur af því hvernig gengið hefur annars staðar. Það liggur fyrir hollensk úttekt á sambærilegum breytingum þar sem ýmis varnaðarorð eru sett fram, t.d. að pólitískir hagsmunir, viðskiptatengsl og þróunarsamvinna vilji renna saman í einn pott þar sem skilin verða ekki gagnsæ og bitna fyrir vikið gjarnan á hefðbundinni þróunarsamvinnu. Þar var lagt til að skipulagið yrði fært til fyrra horfs en því var reyndar ekki fylgt.

Það segir um utanríkisráðuneytið að meginverkefni þess felist í hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd gagnvart erlendum ríkjum. Þá má kannski segja að starfsmenning ráðuneytisins kristallist í þeim orðum að tryggja hagsmuni Íslands í útlöndum. Ef við hugsum þennan málaflokk sem við erum hér að ræða má segja að bara það segi okkur að það sé óskynsamlegt að flytja þróunarsamvinnu inn í ráðuneytið.

Eins og ég hef áður sagt snýst þróunarsamvinna ekki um hagsmuni Íslendinga, hún snýst um hagsmuni fátækasta fólksins í heiminum. Þegar við erum að tala um góða, árangursríka og vandaða þróunarsamvinnu er hún unnin á þeirra forsendum, forsendum viðtakenda, þeirra fátæku, ekki á forsendum okkar Íslendinga. Þess vegna er svo mikilvægt að aðskilja þetta, að ráðuneytið sé með stefnumörkun en stofnunin fái framkvæmdarvaldið.

Af því að við erum að tala um þróunasamvinnu verðum við að rifja upp að Ísland hefur ekki staðið sig sem skyldi, er mikill eftirbátur Norðurlandanna í framlögum til þróunarsamvinnu. Af þjóðarframleiðslunni okkar er þetta í kringum 0,21%, eitthvað svoleiðis, en Noregur og Svíþjóð eru með yfir 1%. Við erum eiginlega eftirbátur mestallrar Norður-Evrópu þegar kemur að þessum málum.

Varðandi tvíhliða þróunaraðstoð eru lág útgjöld hér miðað við aðrar þjóðir. Framlag okkar er um tíundi hluti af framlagi Dana og þegar við horfum bara á tiltekið land, t.d. Úganda, var framlag Þróunarsamvinnustofnunar 0,14% af tvíhliða aðstoð 2013 þrátt fyrir að Úganda sé eitt af þremur samstarfslöndum Íslands. Þar starfa auðvitað næstum því allir veitendur þróunaraðstoðar í mun fleiri löndum.

Mig langar eiginlega í lokin að taka undir það sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir sagði undir liðnum um störf þingsins áðan, að það skyti skökku við á sama tíma og þingmenn í meiri hlutanum þurfa að setja málið í samhengi og velta því fyrir sér hvernig þetta fer saman að vilja hjálpa fólki heima hjá sér en fara á sama tíma í svo vanhugsaðar breytingar að draga inn í utanríkisráðuneytið (Forseti hringir.) þessa starfsemi sem ætti að vera á vettvangi en ekki inni í ráðuneyti.