145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ósammála því sem hv. þingmaður veltir upp að það sé styttra í að einhver hætta verði þarna á ferðum. Í dag er það að sjálfsögðu þannig að gerðir eru samningar um þessi verkefni. Gerðir eru samningar við héraðsstjórnina í Mangochi um það hvernig fjármununum er varið og í hvaða verkefni er farið. Auðvitað hafa stjórnvöld, í þessu tilviki í dag Þróunarsamvinnustofnun og fyrir atbeina ráðuneytisins líka, gert slíka samninga. Það er ekki þannig að ÞSSÍ eða einhver önnur stofnun hafi ekkert um það að segja í hvað peningarnir fara. Það er gert samkomulag. Er það rétt? Já, ég held það hljóti að vera rétt að gera það þannig. Við hljótum að vilja hafa eitthvað um það að segja hvert fjármunirnir fara ef við afhendum héraðsstjórn eða einhverjum öðrum 10 millj. kr. eða hvað það er, þá hljótum við að passa að það fari þá í heilsugæslu, skóla, brunna eða hvað það er en ekki bara í einhvers konar verkefni sem þeim finnast sniðug og guð má vita hver eru. Það þurfa því að vera samningar um þetta og þeir eru gerðir.

Ég hef ekki jafn miklar áhyggjur, í rauninni engar áhyggjur, og þingmaðurinn af því sem við erum að gera, að í það blandist pólitík eða eitthvað annað. Við þekkjum hins vegar að í sumum eða mjög mörgum löndum reyndar er rekin mjög ákveðin þróunarsamvinna annars vegar og svo er til hliðar rekið það sem þeir kalla viðskiptatengd þróunarsamvinna. Hún þarf ekki að vera af hinu slæma. Alls ekki. Það getur haft áhrif til dæmis á innviðauppbyggingu og ýmislegt í þeim löndum sem þurfa á því að halda. Þetta þarf ekki endilega að vera af hinu slæma. (Forseti hringir.) En við þurfum að fara varlega.