145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[18:41]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já og nei að því leytinu til að ég held að markmiðið með frumvarpinu sé reyndar að koma í veg fyrir skakkaföll, að reyna að ná ákveðnum stöðugleika í efnahagsstjórn og samhæfa áætlanir, samhæfa áætlanir ríkis og sveitarfélaga. Allt hefur þetta auðvitað ákveðið forvarnagildi ef við horfum til efnahagslegra skakkafalla. En ef heilt fjármálakerfi fer á hausinn í pínulitlu landi þá er ekkert annað í stöðunni en að grípa til neyðarráðstafana. Segja má, svo við vitnum til haustsins 2008, að líklega hefði verið erfitt að skrifa þá atburðarás fyrir fram, þó að mjög gott væri að geta gert það, en eigi að síður var það gert með talsverðu hraði svo dæmi sé tekið, þannig að ég held að aðalmálið sé í raun og veru að vera viðbúin. En hvernig er hægt að skrifa það með einhverjum hætti inn í löggjöf? Það átta ég mig ekki á.

Ég velti hins vegar fyrir mér af því að hv. þingmaður veltir þessu upp, og nú er ég dálítið að hugsa upphátt, hvort þarna þurfi að koma til sterkara umboð þess sem er kallað fjármálaráð. Sumir hafa viljað nefna þjóðhagsstofnun í því samhengi, þ.e. sterkara aðhald frá sjálfstæðri stofnun þegar kemur að fjármálum og efnahagslífi og efnahagsstjórn ríkisins, hvort þörf sé á því. Það er þá hreinlega spurning sem mér finnst við eigum að vega og meta. Það er hins vegar ljóst að markmið frumvarpsins er að vera einhvers konar forvörn gagnvart slíkum skakkaföllum.