145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[19:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fróðlega og áhugaverða ræðu. Ég er eins og hv. þingmaður að velta fyrir mér skilyrðum í 7. gr. og sömuleiðis 10. gr. en svolítið í samhengi við 6. gr., eins og ég fór inn á í andsvari við annan hv. þingmann.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefnir að kannski þurfum við ramma eins og í 7. gr. svo að við þurfum alla vega að fara út fyrir lögin ef við ætlum að bregðast við þeim, það þurfi einhvern pínulítinn písk til þess að við höldum okkur við efnið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Þarf ekki eitthvað að gerast ef við förum út fyrir þennan ramma? Það er ekkert erfiði í sjálfu sér að brjóta lög sem tilgreina markmið, samanber að það er ekki erfitt að ná ekki verðbólgumarkmiðum Seðlabankans, það er ekkert mál að fjárlög haldi ekki, það er venjan að fjárlög haldi ekki, að ýmsar stofnanir fara fram yfir fjárlög, og enginn veit hvar ábyrgðin liggur og ekkert gerist í raun fyrr en eitthvað eins og þetta frumvarp er komið fram og við ræðum það. En eftir standa áhyggjur af því að ef skilyrðin í 7. gr. eru of ströng, ef þau eru ekki raunhæf, þá verði einfaldlega til það norm að þessar áætlanir standist ekki. Ég hef smá áhyggjur af því.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi einhverjar hugmyndir um hvað sé hægt að gera til þess að forða því, ef ekki hreinlega það að hafa skilyrðin aðeins mýkri. Nú hef ég ekki tíma fyrir aðra spurningu svo ég læt hana bíða síðara andsvars.