145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

börn sem búa á tveimur heimilum.

[11:25]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Blessunarlega ákveða mjög margir foreldrar að ala upp börnin sín saman á tveimur heimilum eftir skilnað eða sambúðarslit. Rannsóknir sýna að það fyrirkomulag kemur börnum vel og er þeim til góða, en því miður eru ýmsar stofnanalegar eða lagalegar hindranir sem gera foreldrum undir þessum kringumstæðum erfitt fyrir. Það er mikill aðstöðumunur milli þess foreldris sem býr á lögheimili barnsins og þess foreldris sem kallast umgengnisforeldri. Það kemur fram í ýmiss konar ákvarðanatöku sem lögheimilisforeldri má taka, aðgengi lögheimilisforeldris að stofnunum, bönkum og símafyrirtækjum og slíku og það kemur einnig fram í bótakerfinu. Í bótakerfinu er algjörlega gengið út frá því að barn búi á einum stað, þeim stað þar sem það hefur lögheimili.

Þann 12. maí 2014 var samþykkt þingsályktunartillaga að mínu frumkvæði sem ég er 1. flutningsmaður að, um að skipaður yrði starfshópur sem byggi til fyrirkomulag sem jafnaði þennan aðstöðumun umgengnisforeldra og lögheimilsforeldra, annaðhvort þá með því að taka upp eitthvert fyrirkomulag tvöfalds lögheimilis fyrir börn eða annað lagalegt fyrirkomulag þar sem horfst væri í augu við að börn byggju á tveimur heimilum.

Nú er komin út skýrsla, glóðvolg úr prentsmiðjunni bara í dag, sem dreift var hér áðan, skýrsla innanríkisráðherra um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum. Ég fagna þeirri skýrslu. Þar eru stór skref stigin og þar er lagt til að mögulegt verði að skrá barn í svokallaða skipta búsetu að uppfylltum ákveðnum mjög skynsamlegum skilyrðum, og að horfst sé í augu við að barn búi á tveimur heimilum. Það er að mínu viti mikið framfaraskref ef af verður. Mig langar að kanna hug ráðherrans til þessara mála og hvað hún sér fyrir sér að verði næsta skref.