145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

fjármögnun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða.

[11:33]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni og kom skýrt fram við 1. umr. um fjárlagafrumvarpið að tekjur af gistináttagjaldi, þrír fimmtu hlutarnir sem renna til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, eru áætlaðar að verði 150 millj. kr. á þessu ári. Eins og ég greindi frá við þá umræðu hefur Framkvæmdasjóður ferðamannastaða frá upphafi fengið 2,3 milljarða til ráðstöfunar, þar af á síðustu tveimur árum 1.700 millj. kr. síðan þessi ríkisstjórn tók við. Við urðum þess áskynja í fjárlagagerðinni að af þeim 2,3 milljörðum eru enn þá 1.200 millj. kr. eftir óúthlutaðar eða ósóttar í sjóðinn af verkefnum sem búið er að ráðstafa fjármununum til. Við erum að leggja lokahönd á þá greiningarvinnu að finna út hverjar ástæðurnar eru. Er það mótframlagið? Í einhverjum tilfellum, já. Síðan er spurning hvort það strandi á öðrum þáttum og það hefur líka komið í ljós að skipulagsvinna, undirbúningur og annað hefur bara hreinlega ekki verið unnin í tæka tíð. Í fjárlagagerðinni, í meðförum þingsins verðum við búin að ljúka þessari vinnu og munum þá leggja til eftir atvikum eftir því hvað kemur út úr henni auknar fjárheimildir. Við vildum ekki gera það vegna þess að við vorum ekki búin að fá skýringar á því hvað það væri sem væri að tefja.

Ég er alveg tilbúin til að skoða breytingar á starfsreglum sjóðsins. Við erum með slíkar breytingar til skoðunar varðandi mótframlagið. Við heyrum sérstaklega frá litlum sveitarfélögum eða litlum einkaaðilum að þetta getur oft verið sá hjalli sem erfitt er að komast yfir þannig að við erum alveg tilbúin til að skoða það. Við munum tryggja næga fjármuni til þess að standa undir þeim framkvæmdum á ferðamannastöðum sem nauðsynlegt er að fara í.