145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

132. mál
[11:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lofa því að ég verði á Alþingi eftir tíu ár til að takast á við það hvernig menn mæta vandanum í B-deild LSR, enda vona ég svo sannarlega að löngu fyrir þann tíma verði menn byrjaðir að vinna á þeim vanda með inngreiðslum í sjóðinn. En ég ætla að vona að ég verði einhvers staðar ofan jarðar til þess a.m.k. að hafa eftirlit með því hvernig að því verður staðið. (Gripið fram í.) En ætli ég geti ekki bara sagt um þetta eins og nestor minn í jarðfræði sagði á sínum tíma um næsta Kötlugos og við vorum að inna hann eftir því hvenær það mundi verða. Hann sagði að ómögulegt væri að spá um það en einhvern tíma á næstu árum eða áratugum kæmi stórt Kötlugos, en það yrði hins vegar að ráðast hvort hann mundi horfa á það ofan frá eða neðan frá. Það er kannski svolítið svipað með þetta og lífeyrismálin og mig.

Hvað væri best að sjá gerast núna? Ég hef aðeins heyrt, og kannski hafa hv. þingmenn aðeins fylgst með því, að komið hefur upp umræða um hvort hægt væri að ná samkomulagi t.d. á almenna vinnumarkaðnum um að færa eitthvað af þeim launahækkunum sem hagkerfið ræður illa við í þeim skilningi ef þær launahækkanir fara allar í ráðstöfunartekjur og leiða til aukinnar einkaneyslu og kynda upp hagkerfið, og reyna að ná samkomulagi núna við þessar efnahagslegu og þjóðhagslegu aðstæður um að færa þetta að einhverju leyti inn í auknar iðgjaldagreiðslur inn á lífeyrisréttindi. Það er ekki galin hugmynd að mínu mati. Kannski værum við akkúrat núna að tala um þjóðhagslegar aðstæður þar sem það væri mjög skynsamlegt að reyna að taka fyrstu skrefin í þessum efnum, því að það er augljóslega það sem gera þarf, að hækka iðgjaldagreiðslurnar í almennu sjóðina þannig að þær nálgist það sem er í opinberu sjóðunum. Þessi munur á 10, 12 og 15, 15,5 sem þarna er á ferðinni er auðvitað ein af þeim gjám sem þarf að brúa til að kerfin verði líkari hvert öðru. Ég held að það sé býsna góð hugsun að nú séu þjóðhagslega hagstæðar aðstæður til að taka fyrstu skrefin í þeim efnum þó að auðvitað hefði verið best að gera það í tengslum við síðustu samninga.