145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

notkun dróna.

136. mál
[16:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta er þörf og góð umræða. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að það þarf að setja reglur í kringum þessa nýju tækni en kannski spurning hve ítarleg sú reglugerð eigi að vera. Menn mega kannski ekki vera í því að tína alveg upp í hið óendanlega í þeim efnum, en auðvitað þarf að hafa friðhelgi einkalífsins þarna til hliðsjónar og ýmsa aðra þætti, eins og komið var inn á, varðandi náttúrulíf og annað því um líkt.

Ég sé fyrir mér tækifæri í þessu. Þar sem smalamennska er víða um land í algleymingi þá veitti ekki af að geta nýtt sér dróna í smalamennsku. Þar sem ég er nú á því svæði sem mjög erfitt er að smala, á Vestfjörðum, og veit um marga sem eru að príla stórhættulegar syllur og kletta við smalamennsku, þá bara vona ég að það verði hægt að nota þetta fyrirbæri, dróna eða flygildi, til smalamennsku í vestfirskum fjöllum og víðar.