145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:42]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég fara yfir það sem er jákvætt í þessu frumvarpi og ég tel að sé mikilvægt að taka vel í þegar slíkt er lagt fram og það eru auðvitað breytingar sem geta miðað að því að auðvelda gerð nauðasamninga. Við höfum margsinnis gert það með löggjöf, fyrst í minni tíð sem efnahags- og viðskiptaráðherra og aftur auðvitað með breytingunum miklu hér í vor, og eðlilegt að við greiðum áfram fyrir því. Ég tek undir með hv. þingmönnum sem hér hafa lýst nokkurri undrun yfir því með hvaða hætti þetta nýja ákvæði er sett fram um að undanskilja skuldabréf útgefin af hinum föllnu fjármálafyrirtækjum frá afdráttarskatti.

Það er rétt að fara aðeins efnislega yfir það hvað þetta þýðir. Við erum með tvísköttunarsamninga við öll helstu viðskiptaríki þannig að kröfuhafar, hvort sem þeir eru bandarískir, kanadískir eða evrópskir, þurfa ekki að greiða þennan skatt og njóta þess í krafti tvísköttunarsamninga. Hins vegar eru þeir sem þurfa að greiða þannig skatt með sveitfesti til dæmis á Tortóla, á bresku Jómfrúreyjunum og í skattaparadísum í Karabíska hafinu. Maður hlýtur því að spyrja sig: Eru umtalsverð brögð að því í kröfuhafahópnum? Sérfræðingar telja að sá hópur sé nú að fara að fá út úr þessum skiptum, samkvæmt nýlegri greiningu Kjarnans, rúmlega það sem gert hefur verið ráð fyrir í viðskiptum með kröfur á eftirmarkaði undanfarin ár. Í þeim hópi geta verið íslenskir kaupahéðnar með sín aflandsfélög og að þeir séu nú að fá kröfur sínar greiddar. Maður spyr sig hvort þessi breyting sé þess vegna fyrst og fremst gerð til þess að auðvelda slíkum aðilum að fá hagnað af þessum bréfum.

Ég hvet nefndina til að fara yfir þetta því að ég sé ekki betur en að allir þeir sem eru með skattskyldu í sæmilega siðuðum ríkjum í kringum okkur þurfi ekki að greiða slíkan skatt en að skattskyldan falli á þá sem eru á Tortóla og breskum Jómfrúreyjum og slíkum stöðum.

Í öllu falli er fullkomlega eðlilegt að nefndin fari yfir það hvort engin íslensk skuldabréf séu tekin til skráningar í erlendum uppgjörsmiðstöðvum nema þau séu undanþegin þessari skyldu.

Virðulegi forseti. Það er óhjákvæmilegt þegar maður ræðir þetta mál og þróun þess að rekja forsöguna. Hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan að hann vildi ekki nálgast þetta mál sem tekjuöflun eða út frá sjónarmiðum sem tekjuöflun ríkisins og hvað væri hægt að hafa upp úr þessari aðgerð í ríkistekjur. Ég er sammála því en upplegg ríkisstjórnarinnar hefur verið með öðrum hætti. Fyrir síðustu kosningar röktum við í smáatriðum sem þá áttum aðild að ríkisstjórn hvernig við sæjum fyrir okkur uppgjör við erlenda kröfuhafa. Það var með samningum og við nefndum svigrúm upp á 300 milljarða. Þá var það afstaða forustu ríkisstjórnarinnar, Framsóknarflokksins, að það stappaði nærri landráðum. Hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra kallaði það meira að segja landráð í frægri grein um páskana 2013. Hæstv. forsætisráðherra sagði að með sinni einstöku blöndu af kylfu og gulrót mundi hann tryggja svigrúm upp á 800 milljarða í ríkissjóð.

Hæstv. ríkisstjórn var ekki af baki dottin því að þegar Hörpufundurinn var haldinn í vor og stöðugleikaskatturinn kynntur var haldið áfram að setja fram myndina af gríðarlegum tekjum sem mundu verða af þessu í ríkissjóð. Hæstv. fjármálaráðherra sem nú segir okkur að hann vilji ekki nálgast þetta mál á forsendum tekjuöflunar fyrir ríkissjóð stóð samt með hæstv. forsætisráðherra fyrir framan skilti sem á stóð talan 1.200 í margfaldri líkamsstærð þeirra félaga og eru þeir þó engin smámenni, hvor um sig. 1.200 stóð fyrir aftan þá. Það var hluti af því uppleggi þeirra beggja að heildarávinningurinn af þessu ef stöðugleikaskattur yrði innheimtur gæti verið 1.200 milljarðar. Síðan var ítrekuð talan um 800, líka með sömu stóru stöfunum.

Eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson rakti hér ágætlega áðan hafði hvorugur þessara herramanna fyrir því að kynna, hvorki þjóð né þingi, það á þeim tímapunkti að ætlunin væri allt önnur. Svo kom hér fram frumvarp og samkvæmt því mátti ráða, eins og kemur fram í nefndarálitum frá í vor, að skatturinn mundi skilja 682 milljörðum en jafnframt að flest benti til að stöðugleikaframlag yrði umtalsvert minna. Þegar maður sér núna í hvað glittir í ljósi þess sem fréttir hafa borist af frá slitabúunum lætur nærri að stöðugleikaframlagið verði einhvers staðar á bilinu 300–350 milljarðar.

Með öðrum orðum, ríkisstjórnin sem sagði að þetta mundi skila í ríkissjóð 1.200 milljörðum er með þeirri leið sem búin var til með nauðasamningaleiðinni að gera kröfuhöfunum kleift að sleppa með fjórðung þeirrar fjárhæðar. Það er búið að samþykkja lög í landinu um stöðugleikaskatt sem munu að óbreyttu skila 682 milljörðum en það á að gefa helmingsafslátt frá þeim lögum.

Það er sama hvernig maður snýr þessu máli, það vorum ekki við í stjórnarandstöðunni sem nálguðumst þetta mál út frá því hverju það gæti skilað í ríkissjóð, það voru þessir ágætu herramenn sem stilltu sér upp fyrir framan töluna 1.200 milljarðar. Það var enginn sem bað þá um að gera það. Þeir eru núna að gefa erlendum kröfuhöfum — fyrirgefið, ég ætlaði ekki að segja erlendum, það er ekkert víst að þeir séu erlendir, þetta geta líka verið vildarvinir þeirra með aflandsfélög á Tortóla og bresku Jómfrúreyjum eins og skattákvæðið bendir nú til að kunni að vera einhver brögð að. Þeir eru að gefa þeim afslátt sem er annaðhvort helmingur miðað við frumvarpið, eða 75% afsláttur miðað við það sem þeir sjálfir stilltu sér upp fyrir framan.

Það er algjörlega fordæmalaust að í gegnum hliðarfarveg við gild skattalög skuli vera búið til samningssvigrúm af hálfu ríkisins til að losna með svo gríðarlegum hætti undan skattskyldu. Þetta er allt byggt á stöðugleikaskilyrðum sem ekki eru gerð opinber. Í athugasemdum okkar í minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar í vor vöktum við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon athygli á því að það væri full ástæða til að þessi stöðugleikaskilyrði yrðu ljósari og eitthvað yrði opinbert um það á hvaða forsendum ákvörðun um þetta frávik og undanþágu í rauninni frá skattskyldu væri byggð. Það er mjög sérstakt út frá grundvallarreglu stjórnarskrárinnar um að skattar verði einungis lagðir á með lögum að hægt sé að semja sig undan sköttum og fá svona gríðarlegan skattafslátt á forsendum sem stjórnvald markar en eru ekki opinberar. Seðlabankinn er stjórnvald hvað varðar rekstur gjaldeyrishaftanna og forsendurnar fyrir afslættinum eru ekki ljósar, ekki gagnsæjar.

Ég tek eftir því að Indefence hefur gert athugasemdir við þetta og mér finnst full ástæða til þess að efnahags- og viðskiptanefnd fari mjög vandlega yfir þá gagnrýni alla saman. Er eðlilegt að svona ákvarðanir séu teknar vegna þess að það er alveg rétt sem oft hefur verið nefnt, að það er bara ein silfurkúla í byssunni? Er rétt að taka ákvarðanir sem þessar án þess að fyrir liggi opinberlega öll smáatriði þegar forsendurnar sem liggja að baki? Mér finnst það standa upp á ríkisstjórnina sem stillti sér sjálf frammi fyrir tölunni 1.200 milljarðar fyrir örfáum mánuðum að útskýra hvers vegna 300–350 milljarðar séu fullnægjandi heimtur. Hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra skulda okkur svör við því hvers vegna samningsframganga þeirra gagnvart erlendum kröfuhöfum er fullnægjandi í ljósi allra aðstæðna.

Ég minni aftur á úttekt Kjarnans sem bendir til að niðurstaðan sem nú sé að verða í þessum heimtum sé að minnsta kosti á pari og jafnvel umfram það sem kröfuhafar hafa líklega búist við ef tekið er mið af verði krafna á eftirmarkaði á undanförnum árum. Það er mjög athyglisvert ef öll herferð núverandi ríkisstjórnar gegn kröfuhöfunum hefur ekki skilað sér í neinu öðru en því að þeir fái heldur rýmri heimtur en þeir bjuggust við allan tímann. Það verður þá að segjast eins og er að þetta er einhver mesta veiðileysuför sem farin hefur verið af ríkisstjórn á Íslandi. Ég hvet til þess að nefndin fari mjög vandlega yfir alla þætti þessara mála og hugleiði það sérstaklega hvort ekki sé ástæða til þess að opinbera betur stöðugleikaskilyrðin sem eru forsenda þessa fordæmalausa skattafsláttar sem ríkisstjórnin ætlar að veita erlendum kröfuhöfum en ekki almennum Íslendingum, bara erlendum kröfuhöfum.