145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

beiðni um sérstaka umræðu.

[13:32]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að kvarta yfir því að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki orðið við beiðni minni um sérstaka umræðu um verðtryggingu. Ég lagði fram þessa beiðni í febrúar síðastliðnum. Hæstv. forsætisráðherra sá sér ekki fært að verða við henni allt vorþingið. Nú hef ég lagt hana fram öðru sinni og hefur hún legið hér frammi frá því að þing var sett í septemberbyrjun og enn hefur hæstv. forsætisráðherra ekki séð sér fært að eiga þessa umræðu við mig. Hún grundvallast auðvitað á því að 23. janúar 2014 skilaði starfshópur um afnám verðtryggingar skýrslu til forsætisráðherra. Forsætisráðuneytið gaf síðan út frétt 9. maí 2014 um þær aðgerðir sem grípa ætti til frá og með 1. janúar 2015. Síðan átti að setja af stað vinnu frá og með árinu 2016 með áætlun um fullkomið afnám verðtryggingar á nýjum neytendalánum.

Þetta er eitt helsta kosningaloforð Framsóknarflokksins og ég sætti mig ekki við það að vera ekki virt viðlits þegar ég óska eftir því að fá að ræða það við hæstv. forseta (Forseti hringir.) og ég óska eftir því að hæstv. forseti gangi á eftir ráðherranum og sjái til þess að þessi umræða fari fram hið snarasta.