145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri.

[14:22]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í skýrslu um ölvunaraðgerðir og áfengislás sem var hluti af þeirri þingsályktunartillögu sem fyrst var hér lögð fram og þessu tengd kemur ýmislegt fróðlegt fram, m.a. þegar kemur að forvarnaaðgerðum, námskeiði og fræðslu. Þar er rakin sagan þegar við breyttum lögunum 2007 til að bæta akstur ungra ökumanna. Þá var sett inn ákvæði þegar ökumenn fengu fjóra punkta að þeir þyrftu að sækja sérstakt námskeið og taka ökupróf að nýju. Þá var farin sú leið að beita ekki lengur bara sektum og sviptingum heldur að reyna að fá unga ökumenn til þess að sækja námskeið til að bæta stöðu sína.

Námskeiðið er byggt á hugmyndafræði sem kennd er við GADGET-líkanið sem segir svolítið til um að hvernig ábyrgur ökumaður mótast. Þar er ekki verið að miðla bara þekkingu um umferðarlögin heldur er svolítið verið að stýra inn á akstur, tilgang hans, áhættu, ákvarðanatöku og ábyrgð og af hverju yfir höfuð ungir ökumenn séu á slíku námskeiði.

Þetta hafði mikil forvarnaáhrif og brotlegum nýliðum fækkaði um 60% á milli áranna 2006 og 2007 og 2007 og 2008. Á árunum 2007–2010 sóttu 617 einstaklingar sérstakt námskeið, 80% karlar og 20% konur. Um mitt árið 2011 var ökuferillinn svo kannaður í framhaldinu hjá þeim sem höfðu sótt námskeiðið og 50% þeirra höfðu engin skráð brot eftir að hafa setið námskeiðið, 11% vegna ölvunar- og fíkniefnaaksturs, 33% vegna hraðaksturs og 6% önnur brot.

Þetta væri líka hægt að sjá fyrir sér þegar kemur að eldra fólki með einhverri tiltekinni útfærslu. Ég held að það sé eitthvað sem við eigum að huga að nú þegar við tölum um hert viðurlög. Hvaða aðferðir og aðgerðir getum við notað frekar en bara (Forseti hringir.) beinhörð viðurlög?