145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri.

[14:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér er mikið talað um refsingar. Það er gott vegna þess að það er mikilvægt að ræða þær. Ég vil halda því til haga að tillaga hv. þingmanns sem hér er málshefjandi fjallar einnig um lækkun refsimarka ölvunaraksturs úr 0,5 prómillum í 0,2 prómill, námskeið um alvarleika ölvunar- og vímuefnaaksturs og í fjórða lið er kveðið á um ný úrræði í viðurlögum við ölvunar- og vímuefnaakstri. Það er mjög mikilvægt að líta til þess þegar við ræðum þetta mál vegna þess að markmiðið er auðvitað ekki að refsa heldur að fækka ölvunaraksturstilvikum.

Fólk hefur almennt tilhneigingu til þess að hafa oftrú á refsingum. Ég, eins og margir aðrir sem hér hafa talað, er alls ekkert viss um að þyngri refsingar skili endilega tilætluðum árangri. Það er mikilvægt að rannsaka það sérstaklega. Það getur verið að það virki, en það á ekki að þykja augljóst. Oft og tíðum felst aðalforvörnin í því að viðkomandi verði yfir höfuð gómaður óháð því hversu mikil refsingin reynist síðan vera. Til þess að ná því markmiði, ef það hefur meiri áhrif en þyngri refsingar, þá er mikilvægt að efla eftirlit með umferðinni. Það þýðir að fjölga þarf lögreglumönnum og bæta almennt starfsskilyrði þeirra, nokkuð sem ég er algjörlega hlynntur.

Það er ýmislegt fleira sem ég held að sé alveg þess virði að ræða í þessari umræðu en það er kannski erfitt að koma því fyrir í tveimur mínútum, jafnvel þótt ég tali tvisvar. Ég hlakka til að eiga mun ítarlegri umræður um þetta mál þegar frumvarpið verður lagt fram. Að því sögðu hlakka ég til að sjá það frumvarp og fagna því að þetta mál sé hér til umræðu.