145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri.

[14:42]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir umræðuna sem er auðvitað mikilvæg fyrir okkur í innanríkisráðuneytinu vegna þessa málaflokks og annarra. Það er alltaf gott að vita þegar maður hefur líka stuðning í þinginu í þeim verkum sem fram undan eru.

Ég vil vegna þeirrar umræðu sem hér hefur verið lýsa þeirri skoðun minni að ég skil bæði þingmál hv. þingmanns og umræðuna svo að menn líta fyrst og fremst til þess hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir eins og hægt er að ökumenn aki undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Í því efni er augljóst að forvarnir skipta gríðarlega miklu máli og það er áhugaverður punktur sem kom fram áðan um að við foreldrar höfum miklu hlutverki að gegna. Ég er til dæmis núna í því að vera aukaökumaður fyrir dóttur mína og það hvílir á okkur foreldrum öllum sú skylda að greina börnunum frá því að í raun og veru eru þau að aka um á tæki sem getur drepið. Það er ekkert flóknara en það. Sú er ábyrgðin sem hvílir á ökumönnum. Ungir krakkar vilja ekki endilega heyra þetta en það er okkar hlutverk að koma þeim í skilning um það og að sjálfsögðu hins opinbera almennt líka.

Ég tek því undir það sem hefur komið fram að forvarnir skipta gríðarlega miklu máli og einnig sýnileiki, að þetta sé nokkuð sem ekki er látið viðgangast. Það sem ég held að mikilvægt sé fyrir okkur að hugsa um er að það veit enginn hvaða áhrif hálft vínglas hefur á færni manna til að keyra bíl. Menn eiga bara að sleppa þessu alveg. Það væri best. Við höfum verið að ræða prómill o.s.frv.

Mig langar svo rétt í lokin að segja, af því að nefndar voru tölur um dauðsföll í umferðinni, að því miður höfum við á þessu ári tapað ellefu mannslífum í umferðinni, að hluta til vegna þess að ekki voru notuð bílbelti. Það er annar angi af þessu máli sem er mjög brýnt að sé reglulega til skoðunar, að alveg ljóst sé að allir sem aka bíl og sitja í bíl þurfa að nota bílbelti.