145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

157. mál
[15:04]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að þetta frumvarp sé komið aftur fram og að það sé svona snemma á dagskrá þingsins þetta haustið. Ég held að frumvarpið eins langt og það nær skipti gríðarlega miklu máli því það er mjög nauðsynlegt að gera þær breytingar sem hér eru lagðar til á hugtakanotkun til þess að við getum, líkt og hæstv. ráðherra sagði áðan í framsöguræðu sinni, klárað fullgildingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks.

Eins og ég segi þá dugar frumvarpið bara eins langt og það nær því að í megindráttum er hér einungis um að ræða orðalagsbreytingar þar sem orðinu „fatlaður“ í hinum ýmsum beygingarmyndum er skipt út fyrir orðalagið „fatlað fólk“. En þetta þarf að gera vegna þess að hugtakanotkun í lögum verður að vera í samræmi við hugtakanotkun samningsins sjálfs. Orð skipta miklu máli og það skiptir máli hvernig við tölum um fólk í lagatextum, ég tala nú ekki um þegar um er að ræða fólk í jaðarsettri stöðu, þá skiptir þetta gríðarlega miklu máli.

Líkt og ég kom inn á í andsvari mínu við hæstv. ráðherra eru það mér vonbrigði, nú þegar frumvarpið kemur fram í annað sinn, að ekki séu lagðar til neinar efnislegar breytingar eins og til dæmis breytingar á skilgreiningu á hugtakinu fötlun. Hér er enn að finna í öllum þessum lögum skilgreiningar sem eru samkvæmt læknisfræðilegum skilningi á fötlun þar sem réttara væri að nota hugtakið „skerðingar“. Slík orðanotkun væri í anda sáttmála Sameinuðu þjóðanna, þ.e. samningsins sem þessar lagabreytingar er jú liður í að við getum fullgilt. Þess vegna þarf að vera samræmi þarna á milli og þetta er væntanlega eitthvað sem þarf að gera í næstu skrefum. Ég veit ekki hvort það er eitthvað sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd getur gert í sinni vinnu eða hvort þetta þarf að bíða eða fara í frekari vinnslu í ráðuneytinu. Ég tel alla vega mjög mikilvægt að þetta sé haft í huga í vinnunni sem er fram undan.

Svo er það auðvitað alveg ótrúlegt, líkt og hæstv. ráðherra kom inn á í framsögu sinni, að með þessu frumvarpi er verið að fella úr gildi tæplega 200 ára gamla tilskipun um vald biskupa til að veita undanþágur frá fermingartilskipun. Ég verð eiginlega að fá að lesa þessa tilskipun upp en hún hljómar svona, með leyfi forseta:

„Nú er barn, sem ferma á, krypplingur, svo að það á bágt með að koma í kirkju til fermingar, eða það getur það eigi að hættulausu vegna stöðugra veikinda eða það hefir svo stórkostleg líkamslýti, að koma þess og yfirheyrsla í kirkjunni gæti vakið hneyksli; og skal þá biskupi heimilt að leyfa, að það sé fermt heima í votta viðurvist.“

Það er alveg ótrúlegt að við séum að gera slíka tiltekt í lögum eða tilskipunum og fella svona hluti brott árið 2015. En þetta segir kannski ýmislegt um þá stöðu sem málaflokkurinn er í, að við séum ekki komin lengra þegar kemur að málefnum fatlaðs fólk þegar svona, ég veit eiginlega ekki hvaða orðalag er nógu sterkt, svona orðalag sé enn þá að finna einhvers staðar í lagatextum eða tilskipunum sem eru í gildi. Ég verð alveg gríðarlega ánægð þegar frumvarpið verður samþykkt þó ekki sé nema vegna þess að þá fer þetta út, þótt orðalagsbreytingarnar séu auðvitað mikilvægar líka.

Líkt og ég kom inn á áðan í andsvari mínu við hæstv. ráðherra skilaði Rannsóknasetur í fötlunarfræðum ansi góðri umsögn með málinu á síðasta þingi sem ég held að sé mjög mikilvægt að nefndarmenn skoði vel og lesi. Rannsóknasetrið gerir athugasemd við íslenska þýðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og bendir á nokkrar greinar þar sem þau telja að um sé að ræða ranga eða að minnsta kosti villandi þýðingu. Það hefur áhrif á það hvernig samningurinn er túlkaður og hvernig hann er notaður og með hann farið. Bent er til að mynda á ranga þýðingu á 13. gr. samningsins sem ber titilinn „Aðgengi að réttarkerfinu“ í íslensku þýðingunni. Á ensku ber þessi grein titilinn „Access to justice“. Ég er sammála því sem Rannsóknasetur í fötlunarfræðum bendir á að þessi orð, „access to justice“, hafa miklu víðtækara þýðingu en bara aðgengi að réttarkerfinu og þess vegna hugnast mér að segja hér frekar aðgengi að réttlæti. Það eru fleiri svona atriði sem bent er á sem ég held að þurfi að hafa vel í huga við áframhaldandi vinnu, ef ekki nákvæmlega vegna samþykktar á fyrirliggjandi frumvarpi eða vegna þeirra breytinga sem hugsanlega kunna að verða á því í meðförum nefndarinnar, þá að minnsta kosti í þeirri vinnu sem við vitum öll að er fyrir höndum til að hægt sé að fullgilda samninginn.

Það hefur gengið talsvert brösuglega að þýða samninginn svo sátt náist um og eitt af því sem Rannsóknasetur í fötlunarfræði bendir á er að það séu komnar þrjár útgáfur af þýðingum af samningnum sem allar séu, eins og þau segja, misrangar og engin þeirra sé rétt. Þetta er auðvitað mjög óheppilegt þegar um alþjóðlegan mannréttindasáttmála er að ræða. En þetta er auðvitað hægt að laga, hvort sem það verður gert í meðförum nefndarinnar eða á síðari stigum í texta frá ráðuneytinu. Það er mikilvægt að farið sé yfir þetta og þýðingarnar séu nógu góðar.

Að lokum vil ég segja að það er gríðarlega mikilvægt að þau frumvörp sem snerta á einhvern hátt málefni fatlaðs fólks og verða lögð fram á Alþingi héðan í frá og þar til samningurinn um réttindi fatlaðs fólks hefur verið fullgildur — og raunar líka eftir það, en kannski sérstaklega fram að því að þessari vinnu er lokið — séu frá upphafi í samræmi við samninginn. Þá á ég ekki bara við efnisinnihald heldur einnig að hugtakanotkun sé rétt og notað rétt orðalag. Þannig getum við sparað okkur gríðarlega mikla vinnu við að þurfa ekki að fara eftir á að skoða orðalag og gera orðalagsbreytingar. Í umræðunni um þetta mál á síðasta þingi hvatti ég hæstv. innanríkisráðherra til að koma þessum skilaboðum á framfæri innan Stjórnarráðsins því þetta gildir auðvitað ekki bara um mál sem snúa að hæstv. innanríkisráðherra og hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, það gildir um öll lagafrumvörp sem hér eru lögð fram að þess sé gætt að innihald þeirra og orðalag sé í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Að þessu öllu sögðu vil ég endurtaka það sem ég sagði hér í upphafi að eins langt og þetta frumvarp nær eða kannski eins skammt og það nær með breytingum á orðanotkun og ákveðnum hugtökum þá er þetta auðvitað nauðsynleg vinna sem þarf að fara í. Ég hef lýst því sem ég tel að þurfi að skoða í þessari vinnu en að öllu sögðu hlakka ég til þess að frumvarpið verði samþykkt og þar með verði tekið ákveðið skref í að undirbúa það að hægt sé að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna. Ég hlakka svo bara enn meira til þegar við förum að sjá frumvörp þar sem gerðar eru efnisbreytingar á lögum til þess að þau uppfylli samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.