145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[16:43]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil leiðrétta það að ég hafi sagt að efnahagsvandræði Grikkja væru almenningi þar að kenna. (Gripið fram í.) Ég sagði að þar hefði verið óstjórn í ríkisfjármálum. Ég vona að hv. þingmaður átti sig á því að það er allt annað að almenningur hagi sér illa eða ríkisstjórnir hagi sér illa í fjármálastjórn. Það er tvennt ólíkt. Ég stend enn þá við það. Hann segir að enginn megi hósta því upp að Grikkir ætli að ganga úr myntsamstarfinu, ekki sé hægt að gera það vegna þess að þá verði fjármagnsstreymi út úr landi. Já, það er hárrétt, en ef einhver mundi hiksta því upp hér að það ætti bara að taka af fjármagnshöftin hviss bang á Íslandi þá mundi nú líka aldeilis verða „run“ eða áhlaup á íslenska krónu og krónan mundi fara út og krónan mundi súnka, það er alveg ljóst.

Ég er ekkert að tala um að einhver hafi skjól af þessu, ég held að ég hafi ekki notað orðið skjól, ég held að ég hafi notað orðið … (Gripið fram í.) Jæja þá, þá tek ég það aftur. Það sem ég átti við er agi. Það er agi af því að vera í stærra myntsamstarfi. Ef ég hef notað orðið skjól þá var það agi sem ég átti við. Það er aginn af því að vera í stærra myntsamstarfi.

Ég held að það sé nú líka einhver misskilningur hjá hv. þingmanni að það sé ekki samkennd og Þjóðverjar vilji ekki greiða með sínum peningum. Þjóðverjar hafa náttúrlega í fyrsta lagi sent fullt af peningum (Forseti hringir.) til Grikklands. Akkilesarhællinn í Evrópu í myntsamstarfinu er náttúrlega sá að sambandið (Forseti hringir.) sjálft hefur ekkert yfir ríkisfjármálunum að segja. Þess vegna geta ríkisstjórnir hagað (Forseti hringir.) sér óskynsamlega áfram. Það er ekki almenningur.