145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[17:56]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson ræddi mikið um Grikkland og aðstæður þess í ræðu sinni og ég tek undir með honum, aðstæður Grikklands eru skelfilegar. Ég er líka sammála því að ég hefði viljað sjá Evrópusambandið bregðast öðruvísi við.

En þá velti ég samt sem áður fyrir mér þeirri spurningu að Syriza var kjörinn til valda og endurkjörinn núna, ekki síst vegna spillingar í Grikklandi, og ég spyr þingmanninn: Má skilja hann sem svo og ræðu hans að evran, gjaldmiðillinn sem Grikkland notar, sé hluti af því vandamáli sem Grikkir eru að kljást við í dag? Það mátti skilja af því samhengi sem umræðan um Grikkland var sett í í ræðu hans.