145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[18:36]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna að sjálfsögðu þeirri umræðu sem hér hefur farið fram og þótt ég sé í svokölluðum stjórnarflokki þá fagna ég henni þvert á það sem hér var gefið í skyn, margoft. Mig langar að spyrja nokkurra spurninga. Hér var talað um að hér hefði orðið tvenns konar hrun, bæði bankahrun og hrun gjaldmiðils og það er mjög áhugaverð athugasemd og að ég held alveg hárrétt. Kannski er ein meginástæðan fyrir því að hér verður alltaf hrun gjaldmiðils og hjá bönkunum á sama tíma sú að við notum gjaldmiðil sem er starfræktur af einkabönkum. Við notum innstæðurnar sem eru í raun skuld bankans við okkur til að eiga sem greiðslumiðil í viðskiptum, við skiptumst á þessum innstæðum. Við tökum aldrei krónurnar út og notum seðla mjög lítið. Ég held að 95% af þeim peningum sem við notum í hagkerfinu til að eiga viðskipti, um 400 milljarðar, séu á þessum innstæðureikningum og við notum þá peninga.

Er í rauninni óhætt að mati hv. þingmanns að reiða sig á gjaldmiðil sem er einkarekinn? Væri ekki skynsamlegra að ríkissjóður eða Seðlabankinn mundu sinna því að búa ekki bara til peningaseðlana heldur líka þær rafrænu innstæður sem efnahagslífið þarf nauðsynlega að hafa til taks á hverjum tíma til að eiga viðskipti? Er einhver sérstök ástæða fyrir því að við höfum ákveðið að einkavæða rekstur gjaldmiðils með þessum hætti? Og verðum við einhverju bættari með því að taka upp einkarekinn gjaldmiðil frá Evrópusambandinu, myntbandalaginu þar, eða bandaríkjadollar sem líka er einkarekinn? Eigum við ekki frekar að taka upp svokallaða þjóðmynt sem við sjálf rekum og gætum þess að hún sé rekin af skynsemi og ekki sé verið að auka magn hennar úr hófi? Er það ekki eitthvað sem hægt væri að skoða frekar en að fara að taka upp annarra manna gjaldmiðla?