145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[19:27]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er hjartanlega sammála þeim áherslum sem fram koma hjá hv. þingmanni. Menn hafa lagst gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið af ýmsum forsendum. Margir hafa horft til yfirráða yfir auðlindum, þá sérstaklega sjávarauðlindinni að sjálfsögðu. En aðrir hafa einblínt á eða horft meira til lýðræðismálanna. Ég er í þeim hópi. Ég tel að Evrópusambandið sé um of keyrt á grundvelli markaðshyggju og öðrum þáttum þröngvað undir þá hugsun. Þetta á að sjálfsögðu við um þau ríki sem eiga aðild að hinu Evrópska efnahagssvæði. Vandinn er hins vegar sá eins og ég gat um áðan að eitt er að ákveða að ganga í Evrópusambandið eða þess vegna gerast aðili að hinu Evrópska efnahagssvæði og annað að ganga þaðan út. Það er ekki sama ákvörðunin. Það er þetta sem Grikkir hafa átt við að stríða. Ef atkvæðagreiðsla hefði farið fram um það núna hvort Grikkir ættu að taka upp evru eða ganga í Evrópusambandið þess vegna, þá er það mín tilfinning að það hefðu þeir ekki gert. Það er hins vegar allt önnur spurning hvað þeir gera við þær aðstæður sem nú eru uppi. Ég hef nú trú á því að ég væri ekki lengur félagi í Syriza-flokknum eftir það sem þar gerðist, heldur væri í flokki sem er heldur minni og tókst því miður ekki að klöngrast yfir þröskuldinn sem átti að vera upp á 3–4% en munaði, held ég, einu broti úr prósenti til að komast þar yfir. Hver rak Varoufakis? Ég held að hann hafi bara tekið ákvörðun um það sjálfur eftir að Merkel og hinir (Forseti hringir.) raunverulegu ráðamenn Evrópusambandsins tóku sínar ofbeldisfullu ákvarðanir gagnvart Grikkjum. Það er önnur saga.