145. löggjafarþing — 17. fundur,  7. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að vekja athygli þingheims á niðurstöðu Evrópudómstólsins varðandi Safe Harbor samninginn þar sem hann var dæmdur svo gott sem ógildur. Safe Harbor samningurinn snýst í stuttu máli um það að Bandaríkin og Evrópusambandið, þar með ábyggilega Ísland, ef ég man rétt, megi hýsa persónulegar upplýsingar á bandarískri grundu, að það sé leyfilegt.

Undir venjulegum kringumstæðum má ekki flytja þessar upplýsingar til landa utan lögsögu Evrópusambandsins nema þau uppfylli sömu kröfur og Evrópusambandið gerir. Þessi samningur, Safe Harbor samningurinn frá 2001, hefur ítrekað hlotið mikla gagnrýni frá því að hann var gerður. Eftir uppljóstranir Edwards Snowdens komu sönnunargögn fram sem sýndu að allt sem færi í gegnum bandarískar þjónustur, svo sem Facebook, færi líka í gegnum Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, NSA, þannig að það var verið að njósna um okkur og það gildir ábyggilega um alla sem eru hér inni.

Núverandi lög, um gagnavernd í Bandaríkjunum, hafa því verið talin ófullnægjandi fyrir Evrópusambandið. Ég fagna þessum úrskurði eindregið þar sem þetta verður þvílík bragarbót á stöðu persónuverndar í Evrópu og víðar.


Efnisorð er vísa í ræðuna