145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

stöðugleikaframlög.

[10:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra. Ekki er laust við að almenningur í landinu og hv. þingmenn hafi nokkrar áhyggjur af þeirri umræðu sem hefur orðið nú upp á síðkastið um stöðugleikaframlögin. Það þarf ekkert að rifja það upp að stöðugleikaskattur var kynntur hér í vor. Síðan tókum við umræðu í þinginu, góða og málefnalega umræðu, um það frumvarp sem og annað frumvarp sem gerði fjármálafyrirtækjum kleift að leita nauðasamninga í gegnum svokölluð stöðugleikaframlög.

Nú fylgjumst við hins vegar með umræðu, hv. þingmenn og almenningur í landinu, þar sem stöðugleikaframlögin minnka liggur við með hverjum degi. Samkvæmt þeim fréttum sem berast, sem auðvitað eru ekki opinberar, liggja þau nú í um það bil 300 milljörðum. Upphaflega voru tölur nefndar upp á 450–500 milljarða. Hins vegar er margt annað sem stöðugleikaframlögin eiga að fela í sér. Hæstv. forsætisráðherra, ég sá hann síðast í fréttum í gær, sagði að vissulega væri þörf á að útskýra málið nánar, hann tók undir það.

Formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Árni Páll Árnason, sendi bréf á okkur formenn flokkanna í gær og óskaði eftir fundi, annaðhvort á vettvangi formanna flokkanna eða í samráðsnefnd þingmanna um losun hafta, því að greinilega væri nauðsynlegt að fá frekari upplýsingar um hvar þessi vinna stæði. Það hefur reynst erfitt að fá fullnægjandi upplýsingar í efnahags- og viðskiptanefnd. Bæði hefur reynst erfitt að fá fulltrúa á fund, en þegar það hefur gerst þá vakna enn fleiri spurningar sem ekki hefur verið svarað.

Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hyggst hann boða til fundar, annaðhvort formanna flokkanna eða þingmanna í samráðsnefnd um losun hafta, þannig að hægt sé að fara yfir stöðu málsins? Er það ekki algerlega á hreinu að það þarf að gera það áður en nokkuð verður ákveðið um stöðugleikaframlögin í ljósi þess að hér er um gríðarstórt hagsmunamál almennings í landinu að ræða? Það liggur fyrir að við þingmenn sem störfum hér í umboði almennings — okkur er falið að gæta hagsmuna almennings — þurfum að vera upplýst um hvar málið stendur. Þannig að ég beini þessari fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra.