145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

fjárhagsvandi tónlistarskólanna.

[11:03]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það var ekki svo að þetta hafi verið sagt í einhverjum æsingi, ég var bara að segja frá því að þessi fundur hafi átt sér stað í morgun og þar hefði þetta verið reifað.

Virðulegi forseti. Þetta er alveg fráleit nálgun að fyrir liggi eitthvert ígildi samkomulags sem hefði þá verið með munnlegum hætti búið að ganga frá en ætti bara eftir að skrifa nöfnin og þess vegna ættu menn að standa við það. Þetta er algerlega fráleitur málatilbúnaður. Ekkert slíkt samkomulag hefur verið gert. Fundirnir áttu sér stað, en fulltrúar frá Reykjavíkurborg og Sambandi íslenskra sveitarfélaga og áheyrnarfulltrúar frá bæði mínu ráðuneyti og fjármálaráðuneytinu bjuggu ekki til neitt samkomulag sem síðan hefur ekki verið staðið við. Mjög mikilvægt er að þetta komi fram alveg skýrt.

Virðulegi forseti. Ég ætla að nefna svona til glöggvunar hvaða álitamál munu koma upp ef ríkisvaldið ákveður að bjarga málum þessa einstaka sveitarfélags hvað þetta varðar. Hvaða ákvarðanir munu önnur sveitarfélög taka ef Reykjavíkurborg hefur ákveðið að draga sitt fjármagn til baka varðandi tónlistarkennslu á framhaldsstigi og mynda þennan mikla vanda? Ríkisvaldið kemur og borgar í staðinn. Hvað munu önnur sveitarfélög í landinu þá gera? Hvaða skilaboð eru fólgin í þeirri lausn gagnvart þeim? Eiga þau að halda áfram eins og þau eru að gera núna, borga í framhaldsnámið? Eða munu þau segja: (Forseti hringir.) Heyrðu, við erum bara hætt því líka eins og Reykjavíkurborg og ríkið á að hreinsa þetta upp. (Forseti hringir.) Þetta er eitt dæmið um það flækjustig sem í málinu er. Og þegar kemur að ábyrgðinni, virðulegi forseti, þá ætla ég ekki að skjóta mér undan henni. En skýrt er kveðið á um ábyrgðina (Forseti hringir.) í lögum, það eru lög sem segja að þetta skólastig sé á ábyrgð (Forseti hringir.) sveitarfélaganna. Þau bera þá ábyrgð.